Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Lýðheilsuverðlaunin afhent í fyrsta sinn

20.04.2023

 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Íslensku lýðheilsuverðlaunin í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær, 19. apríl 2023. Verðlaunin voru veitt í tveimur flokkum fyrir mikilsvert framlag til eflingar lýðheilsu á Íslandi. Í frétt á heimasíðu forsetaembættisins kemur eftirfarandi fram:

Snorri Már Snorrason hlaut verðlaunin í einstaklingsflokki og fékk hann þau afhent frá forseta Íslands. Í flokki starfsheilda varð Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands fyrir valinu. Arna Hauksdóttir prófessor tók við verðlaununum, sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra afhenti.

Íslensku lýðheilsuverðlaunin eru samvinnuverkefni embættis forseta Íslands, heilbrigðisráðuneytisins, embættis landlæknis, Geðhjálpar og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Forseti tilkynnti um stofnun verðlaunanna í ávarpi sínu á nýársdag 2023. Í febrúar var kallað eftir tillögum frá almenningi að verðugum verðlaunahöfum. Hátt í 350 ábendingar bárust úr ýmsum áttum og var valnefnd falið að fjalla um tillögurnar, tilnefna þrjá í hvorum flokki og velja loks einn einstakling og eina starfsheild sem sæmd voru þessum verðlaunum. Öll hin tilnefndu fengu viðurkenningarskjal við hátíðlega athöfn.

Nánar um verðlaunahafana

Snorri Már Snorrason hefur barist við parkinsonssjúkdóminn í 19 ár og í þeirri baráttu er hreyfingin hans helsta vopn. Hann hefur verið óþreytandi við að benda á gagnsemi hvers kyns hreyfingar, ekki aðeins sem forvörn gegn heilsuleysi heldur líka sem meðferð og til þess að halda niðri einkennum ólæknandi sjúkdóma. Áskorunarorð hans Þín hreyfing – þinn styrkur hafa orðið öðrum í svipuðum sporum mikil hvatning. Mat valnefndar er að Snorri Már sé einstök fyrirmynd, ekki einungis fyrir þau sem berjast við parkinson eða aðra sjúkdóma heldur öll sem fylgst hafa með elju hans og metnaði í áraraðir. Snorri Már er lifandi sönnun um gildi reglulegrar hreyfingar þrátt fyrir erfiðar áskoranir.

Miðstöð í lýðheilsuvísindum (MLV) fæst við fjölbreyttar faraldsfræðilegar rannsóknir á áhrifaþáttum heilsu, ekki síst áhrifum áfalla. Meðal þeirra má nefna rannsóknir á áhrifum ofbeldis og samfélagslegra áfalla, svo sem efnahagshruns og náttúruhamfara. Nú síðast hefur miðstöðin staðið að stórum ferilrannsóknum á borð við Áfallasögu kvenna og Líðan þjóðar á tímum Covid-19. Allar þessar rannsóknir eru unnar í alþjóðlegu samstarfi þar sem MLV er oft í forystuhlutverki. Að mati valnefndar má fullyrða að engin stofnun eða rannsóknarhópur hafi lagt jafnmikið af mörkum til aukinnar þekkingar og skilnings á lýðheilsu á Íslandi og MLV.

Aðrar tilnefningar í flokki einstaklinga:

Ingibjörg Jóhannsdóttir: Ingibjörg hefur af eldmóði sinnt margvíslegu almannaheillastarfi í heimahéraði um árabil. Hún situr í stjórn Ungmennafélagsins Ólafs Páa í Dalasýslu og hefur verið leiðandi í sjálfboðaliðaverkefni sem felst í að koma upp líkamsræktarstöð í Dalabyggð svo heimamenn þurfi ekki að sækja þjónustuna annað.

Olga Khodos: Olga hefur undanfarið ár veitt úkraínsku flóttafólki sálrænan stuðning og þjónustu hér á landi. Sem sjálfboðaliði við sálgæslu hefur hún veitt áfallahjálp hundruðum Úkraínumanna sem flúið hafa stríðið og leitað til Íslands.

Aðrar tilnefningar í flokki starfsheilda:

Janus heilsuefling: Í samstarfi við sveitarfélög hefur Janus heilsuefling sérhæft sig í bættri lýðheilsu eldri borgara, 60 ára og eldri. Markmið verkefnisins er að koma til móts við einstaklinga sem vilja efla heilsu sína og lífsgæði með hækkandi aldri.

Íþróttafélagið Ösp – íþróttir án aðgreiningar: Í 40 ár hefur félagið verið leiðandi í íþróttaiðkun fyrir fólk með fötlun og/eða sérþarfir. Mikil áhersla er lögð á lífsleikni og almenna fræðslu um heilbrigði innan og utan íþrótta.Stefnt er að því að veita Íslensku lýðheilsuverðlaunin aftur að ári.

Myndasafn frá verðlaunaathöfninni má sjá hér.

Athöfninni var sjónvarpað á RÚV og má sjá hér.

 

Myndir með frétt