Heiðranir á héraðsþingi HSK
Fimmtudaginn 23.mars sl. voru hjónin Óskar Pálsson, GHR, og Katrín Aðalbjörnsdóttir, GHR, sæmd Gullmerki ÍSÍ á héraðþingi HSK á Hellu. Bæði hafa setið í stjórn Golfklúbbs Hellu í 21 ár, frá árinu 2000-2021, Óskar sem formaður og Katrín sem gjaldkeri. Þá hafa þau hafa um áratugaskeið unnið ötullega að framgangi golfíþróttarinnar í héraði. Bæði hafa spilað golf með góðum árangri og hefur Óskar að auki verið valinn golfari ársins hjá HSK í þrjú skipti á árnunum 1985-1992.
Á sama tíma var Gestur Einarsson sæmdur Silfurmerki ÍSÍ fyrir störf sín fyrir íþróttahreyfinguna. Gestur hefur átt sæti í varastjórn HSK frá árinu 2014. Hann er í dag formaður kjörnefndar HSK sem og formaður knattspyrnunefndar HSK. Hann hefur tekið virkan þátt í störfum íþróttahreyfingarinnar og t.d. verið fulltrúi HSK á þingum ÍSÍ og UMFÍ undanfarin ár. Að auki hefur hann frá barnsaldri starfað mikið með Ungmennafélagi Gnúpverja í sinni heimasveit.
Það var Gunnar Bragason, gjaldkeri í framkvæmdastjórn ÍSÍ, sem ávarpi þingið og afhenti merkin. Af þessu tilefni voru teknar myndir og má sjá hjónin Óskar og Katrínu með Gunnari á þeirri fyrri og Gunnar og Gest Einarsson saman á þeirri seinni.
ÍSÍ óskar heiðurshöfunum innilega til hamingju með viðurkenningarnar!