Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

55. ársþing KKÍ og formannsskipti í kjölfarið

29.03.2023

 

55. ársþing Körfuknattleikssambands Íslands var haldið í Laugardalshöll laugardaginn 25. mars.  Þingið var vel sótt og var farið yfir hefðbundin þingstörf auk fjölda breytingartillagna sem lágu fyrir.  Þingforseti var Valdimar Leó Friðriksson, meðstjórnandi í framkvæmdastjórn ÍSÍ.   

Sex einstaklingar gáfu kost á sér í stjórn KKÍ um 5 laus sæti.  Þeir sem voru kjörnir voru Ágúst Angantýsson, Einar Hannesson, Guðrún Kristmundsdóttir, Heiðrún Kristmundsdóttir og Herbert Arnarsson, en kosið var til næstu 4ra ára.  Ljóst var að breytingar gætu orðið á formannssætinu þar sem kosið var um þá breytingartillögu á þinginu, að aðskilja starf framkvæmdastjóra KKÍ og formanns KKÍ, en þessi störf höfðu hingað til verið unnin af Hannesi S. Jónssyni. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar, 27. mars sl, kynnti Hannes afsögn sína sem formaður og mun varaformaður KKÍ, Guðbjörg Norðfjörð, taka við af honum til ársins 2025, þegar kosið verður um nýjan formann. 
Guðbjörg verður þar með 15. formaður KKÍ í sögu sambandsins og önnur konan til að gegna því embætti. Nýr varaformaður var kosinn Birna Lárusdóttir.  Á þessum fyrsta fundi stjórnar var síðan undirritaður áframhaldandi ráðningasamningur við Hannes sem framkvæmdastjóri KKÍ. 

Á ársþingið mætti fyrir hönd ÍSÍ Hafsteinn Pálsson, 2.varaforseti ÍSÍ og Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri.  Andri ávarpaði þingið og hann og Hafsteinn veittu Guðbjörgu Norðfjörð Elíasdóttur Gullmerki ÍSÍ  og Einari Karli Birgissyni og Jóni Bender Silfurmerki ÍSÍ fyrir þeirra góðu störf í þágu íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. 

Hér má finna árskýrslur og önnur þinggögn þinginu.

Stærri myndin er af Hannesi S. Jónssyni í pontu frá þingi helgarinnar en á þeirri næstu sjáum við nýja stjórn ásamt Hannesi, framkvæmdastjóra KKÍ og Guðbjörgu, nýjum formanni í fremstu röð.  Þá er mynd af Valdimar þingforseta og svo sú síðasta frá þinginu.

Myndir með frétt