Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Heiðrun á ársþingi KRAFT

02.03.2023

 

Síðastliðinn laugardag, 25. febrúar, var þrettánda ársþing Kraftlyftingasambands Íslands haldið í húsakynnum ÍSÍ í Reykjavík. Þingið var fjölsótt og tóku viðstaddir þátt í góðum og málefnalegum umræðum, undir stjórn Sigurjóns Péturssonar, þingforseta. Þingritari var Laufey Agnarsdóttir. 
Skýrsla stjórnar, ársreikningar og fjárhagsáætlun voru lagðir fram og samþykktir samhljóða og tvær tillögur til orðalagsbreytinga í lagatexta sambandsins voru samþykktar. 

Á þinginu fór fram kjör til bæði stjórnar og formanns. Hinrik Pálsson var kosinn nýr formaður karftlyftingasambandsins en auk hans munu þau Laufey Agnarsdóttir, Aron Ingi Gautason, Þórunn Brynja Jónasdóttir, Kristleifur Andrésson, María Guðsteinsdóttir og Auðunn Jónsson skipa stjórn sambandsins. 
Iðkendum fjölgar jafnt og þétt í kraftlyftingum, bæði í karla- og kvennaflokki. Fjölgunin krefst þess að reglum sé breytt og við framkvæmd móta. Tillögu, sem tekin var fyrir á þinginu varðandi breytingu á mótareglum og fékk miklar umræður um, var vísað til stjórnar til frekari úrvinnslu.  

Fulltrúar ÍSÍ á þinginu voru Ingi Þór Ágústsson, úr framkvæmdastjórn, og Andri Stefánsson, framkvæmadastjóri. Þeir fluttu kveðju frá stjórninni og heiðruðu Helga Haukson fyrir áratugalangt sjálfboðaliðastarf í þágu íþróttahreyfingarinnar með Gullmerki ÍSÍ. 
Helgi hefur dæmt á ótal mótum bæði hér á landi og erlendis. Hann nýtur mikillar virðingar á alþjóðavelli og hefur verið skipaður í kviðdóm á stærstu mótunum.  Helgi situr í landsliðsnefnd og dómaranefnd KRAFT og hefur útskrifað alla starfandi dómara sambandsins.  Hann hefur séð um þýðingar og uppfærslur á keppnisreglum í kraftlyftingum í mörg ár.  Helgi hefur lagt stóran hluta af sínum frítíma í starf og ferðir í þágu kraftlyftingaíþróttarinnar.

Á fyrstu myndinni má sjá Helga Hauksson með Inga Þór og Andra Stefánssyni, þegar hann var sæmdur gullmerki ÍSÍ.  Á annarri mynd má sjá Gry Ek fyrrverandi formann með Hinriki Pálssyni, nýkjörnum formanni.  Á þriðjudag myndinni er hin núverandi stjórn Kraftlyftingasambandsins og á síðustu myndinni má þátttakendur þingsins. 

Myndir með frétt