Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

Íþróttaeldhugi ársins verðlaunaður í ár

30.11.2022

 

Ný verðlaun, Íþróttaeldhugi ársins, verða veitt samhliða lýsingu á kjöri Íþróttamanns ársins 2022. ÍSÍ í samvinnu við Lottó standa að nýju verðlaununum til að heiðra sjálfboðaliða innan íþróttahreyfingarinnar og vekja meiri athygli á starfi þeirra. 

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, segir íþróttahreyfinguna standa í mikilli þakkarskuld við þá einstaklinga sem gefa af tíma sínum til að sinna sjálfboðastarfi fyrir íþróttahreyfinguna. „Með þessari nýju viðurkenningu viljum við lyfta upp starfi sjálfboðaliðans og þakka fyrir hið óeigingjarna starf sem unnið er af fjölda fólks um land allt,  segir Lárus.

Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár, segir starf sjálfboðaliðanna ómetanlegt og árangursríkt og skipta alla þjóðina máli. „Við viljum því virkja alla þjóðina með okkur í að heiðra þetta fólk sem gefur svona mikið af sér. Þess vegna höfum við opnað fyrir ábendingar frá almenningi á lotto.is og hvetjum fók til að nota tækifærið og benda á kraftmikla sjálfboðaliða, hvaðanæva af landinu.

Opið er fyrir ábendingar á vefslóðinni Íþróttaeldhuginn (lotto.is) til 5. desember en leitað er eftir framúrskarandi sjálfboðaliðum sem hafa í gegnum árin nýtt eigin hæfileika, frítíma og sérþekkingu til að efla íþróttastarf, t.d. með því að vinna að framkvæmd móta/leikja, safna fjármunum, bæta aðstöðu eða auka þátttöku hvar á landinu sem er. Rétt er þó að geta þess að launað starfsfólk íþróttahreyfingarinnar kemur ekki til greina.

Sérstök nefnd skipuð valinkunnu íþróttafólki fer yfir þær ábendingar sem berast, tilnefnir þrjá sjálfboðaliða sem þykja skara fram úr og ákveður hver hlýtur nafnbótina Íþróttaeldhugi ársins 2022 og glæsilegan verðlaunagrip frá Lottó. Formaður nefndarinnar er Þórey Edda Elísdóttir en auk hennar eiga Bjarni Friðriksson, Dagur Sigurðsson, Kristín Rós Hákonardóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir sæti í nefndinni.