Heiðranir á afmælishófi Skíðafélags Dalvíkur
Skíðafélag Dalvíkur fagnaði 50 ára afmæli um síðastliðna helgi. Afmælisveisla var haldin föstudaginn 11. nóvember og svo var opið hús í menningarhúsinu Bergi á laugardeginum, þar sem sögu félagsins var gerð góð skil með sýningu sem opin verður almenningi næstu daga. Foreldrafélag félagsins var með kaffihúsið og er talið að hátt í 300 manns hafi komið til að fagna með félaginu.
Í tilefni 50 ára afmælisins var gefið út afmælisrit sem Óskar Þór Halldórsson ritstýrði en þar má meðal annars finna umfjöllun um þau þrekvirki sem sjálfboðaliðar félagsins hafa unnið í gegn um tíðina, auk þeirra miklu afreka sem íþróttafólk félagsins hefur áorkað.
Ýmsar viðurkenningar voru veittar á afmælishófinu og meðal annars voru veitt þrjú Gullmerki ÍSÍ. Merkin hlutu þeir Björgvin Hjörleifsson, Óskar Óskarsson og Brynjólfur Sveinsson, fyrir áratugastarf í þágu félagsins og skíðaíþróttarinnar. Hafsteinn Pálsson 2. varaforseti ÍSÍ afhenti viðurkenningarnar í afmælishófinu og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri.