Merki Heimsstrandarleikanna á Balí
2. Heimsstrandarleikar ANOC, Heimssambands Ólympíunefnda, verða haldnir á Balí 5. - 12. ágúst á næsta ári.
ANOC hefur nú kynnt merki leikanna sem er svokölluð Barong gríma sem samsett er úr ýmsu sem er einkennandi fyrir Balí og strendur Balí. Þar má finna Lenpuyang hofið á toppi grímunnar, umkringt tveimur bylgjum. Í eyrum grímunnar eru blóm úr skeljum eins og balískir karlar dansa með í eyrunum fyrir bardaga eða keppni. Eyrun sjálf eru úr laufblöðum sem tákna hið ótrúlega gróðurlíf á Balí. Tennurnar eru Jukung, hefðbundnir balískir fiskibátar. Form sem líkjast fiski og krabba er svo að finna á enni grímunnar og augun og nefið sjálft merkja sólina og sundmenn í sjónum að leika sér með bolta og veifa fána. Rauði liturinn í merkinu táknar Indónesíu en guli og blái liturinn tákna sólina, himininn og sandinn.
Barong táknar það góða og er talið vernda gegn hinu illa.
Á leikunum verður keppt í 14 íþróttagreinum og búist er við yfir 1.500 keppendum frá yfir 100 löndum úr öllum heimsálfum.