Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

Dagur gegn einelti - 8. nóvember, ár hvert

07.11.2022

 

Áttundi nóvember ár hvert er tileinkaður baráttunni gegn einelti undir slagorðinu „Dagur gegn einelti”. Markmið dagsins er meðal annars að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn einelti, hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu.  

Undanfarnar vikur hefur einelti verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum og nýlegir atburðir meðal barna á grunnskólaaldri hafa vakið upp áhyggjur. Starf grunnskólanna í landinu er samofið starfi íþróttafélaganna að því leyti að líðan barna og atvik þeirra á milli hafa áhrif bæði í skólastarfinu sem og íþrótta- og frístundastarfi. Það þarf því samhent átak allra sem standa að málefnum barna og ungmenna til að vel takist til í baráttunni gegn einelti.

Iðkendur í íþróttastarfi vita oft af einelti/ofbeldi löngu áður en hinir fullorðnu fá vitneskju um það og því er mikilvægt að virkja þá til að taka afstöðu gegn einelti/ofbeldi í verki og tilkynna til forráðamanna íþróttafélags eða starfsfólks íþróttamannvirkis verði þeir varir við eða vitni að slíku. Mikilvægt er að trúnaður ríki milli barna og fullorðinna og að nafnleynd sé virt. Æskilegt er að veita starfsfólki og sjálfboðaliðum þjálfun í að þekkja helstu birtingamyndir eineltis, skilgreiningar og afleiðingar. Eins er mikilvægt að þeir þekki verkferla og leitist við að leysa úr ágreiningi og samskiptavanda um leið og hann kemur upp.

ÍSÍ bendir sambandaðilum og íþrótta- og ungmennafélögum innan þeirra vébanda á nýútgefna, samræmda viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf þar sem finna má greinargóðar upplýsingar varðandi málaflokkinn og þá ekki síst hvernig bregðast skal við tilkynningum er varða samskiptavanda eða einelti.