Fararstjórafundur vegna Vetrarólympíuhátíðar Evrópuæskunnar
Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar verður haldin í Friuli Venezia Giulia dagana 21. - 28. janúar næstkomandi. Friuli Venezia Giulia er hérað í norðausturhluta Ítalíu með landamæri að Slóveníu og Austurríki. Leikarnir fara fram á stóru svæði í héraðinu og fer hluti af keppninni einnig fram í Slóveníu og Austurríki. Keppendur munu dvelja í þremur mismunandi þorpum, allir eins nálægt keppnisaðstöðu í sínum íþróttagreinum og hægt verður.
Nú í vikunni fór fram fararstjórafundur vegna leikanna. Fararstjórar fengu kynningu á helstu atriðum er snúa að leikunum, t.d. aðstöðu, skipulagi og dagskrá og fengu að skoða alla keppnisaðstöðu. Fulltrúar ÍSÍ á fundinum voru Brynja Guðjónsdóttir og Kristín Birna Ólafsdóttir sem verða fararstjórar á leikunum. Á fundinum var einnig Líney Rut Halldórsdóttir sem er formaður EOC EYOF Commission, yfirnefndar yfir Ólympíuhátíðum Evrópuæskunnar.
Íslendingar verða með keppendur í alpagreinum, skíðagöngu, listskautum og á snjóbretti.
Meðfylgjandi eru myndir af fulltrúum ÍSÍ á fundinum sem og yfirlitsmynd yfir það svæði þar sem keppni á leikunum mun fara fram.