Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Alþjóðleg ráðstefna um konur í íþróttum

19.09.2022

 

Þann 15. og 16. september sl. fór fram ráðstefna í Barcelona um konur í íþróttum, en ráðstefnan var haldin af Íþróttasambandi Katalóníu. Þær Hildur Karen Aðalsteinsdóttir úr framkvæmdastjórn ÍSÍ og Ragnhildur Skúladóttir sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs tóku þátt í ráðstefnunni fyrir hönd ÍSÍ. 

Framsetningin var áhugaverð með sex ólíkum málstofum auk fyrirlestra. Titlar málstofanna voru; Eltu draumana, Íþróttir: Skiptir kyn máli?, LGTBIQA+ fóbía í íþróttum í dag og í framtíðinni, Hvetjandi verkefni #PlayingNow frá Íþróttasambandi Katalóníu, Forysta og áhrif og síðasta málstofan bar titilinn Stafræn væðing og fjölmiðlar í íþróttum kvenna. Þátttakendur í málstofunum voru að mestu leyti konur í stjórnunarstöðum í íþróttum, bæði innan Katalóníu og utan hennar ásamt íþróttakonum sem hafa náð langt í sínum íþróttagreinum. 

Helstu niðurstöður ráðstefnunnar eru að mikilvægt er að halda áfram að valdefla konur til starfa innan íþróttahreyfingarinnar sem stjórnarkonur, þjálfara og dómara. Sýnileiki kvenna innan íþrótta þarf að vera meiri þar sem fyrirmyndir gegna mikilvægu hlutverki. Þá skiptir máli að deila þekkingu á milli íþróttagreina. Þessi ráðstefna var sú fyrsta af þessu tagi hjá Íþróttassambandi Katalóníu og ekki er ólíklegt að hún verði haldin árlega í framtíðinni.

Myndir með frétt