Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Fyrsta alþjóðalega siglingamótið á Íslandi síðan 1997

26.08.2022

 

Dagana 21. - 24. ágúst var siglingamótið RS Aero Arctic Championship haldið á Akureyri. Um var að ræða fyrsta alþjóðlega siglingamótið á Íslandi síðan Smáþjóðaleikarnir voru haldnir hér á landi árið 1997 og íslenskt siglingafólk því búið að bíða lengi eftir viðburði sem þessum. Keppt var á bátum af gerðinn i RS Aero og voru þeir sérstaklega fluttir inn til landsins fyrir mótið. Keppendur voru 18 talsins, frá Bretlandi, Írlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Kanada og Íslandi.  

Mikill áhugi var á mótinu en samkvæmt Siglingasambandi Íslands reyndist erfitt að fá gistingu fyrir keppendur.  Siglingafélagið Nökkvi á Akureyri stóð fyrir mótinu, ásamt Siglingasambandi Íslands (SÍL). Aðstaða til siglinga á Pollinum við Akureyri er einstaklega góð og sér í lagi er ný aðstaða Nökkva við Drottningabrautina einstaklega vel úr garði gerð og hentug til mótahalds.

Markmiðið var að sigla 20 umferðir á þremur dögum en því miður „lagði Kári árar í bát” og það lygndi á þriðja degi. Því náðist aðeins að sigla 14 umferðir. Þá daga sem byrinn gaf var góður og jafn sólfarsvindur 7-12 hnútar þannig að allt gekk snurðulaust. 

Úrslit mótsins urðu þau að Peter Barton frá Bretlandi varð í fyrsta sæti, í öðru sæti var Ellie Craig og í þriðja sæti varð Philip Whitehead. Þau Ellie og Philip eru einnig bæði frá Bretlandi. Efstur Íslendinga var Daði Jón Hilmarsson frá Siglingafélaginu Nökkva. Almenn ánægja var með mótið og vakti það athygli langt út fyrir landssteinana. Samkvæmt SÍL er mikill áhugi fyrir þátttöku í næsta móti.

Myndir með frétt