Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Sjóvá-Kvennahlaup ÍSÍ á enda runnið

16.08.2022

 

Í yfir 30 ár hefur Sjóvá-Kvennahlaup ÍSÍ sameinað samveru og hreyfingu kvenna á landsvísu með farsælum árangri. Upphafleg markmið hlaupsins, um að hvetja konur til að gefa sér tíma fyrir sig, hreyfa sig meira og hlúa að heilsu sinni hafa sannarlega náðst.  

Fyrsta hlaupið fór fram í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ árið 1990, að frumkvæði Lovísu Einarsdóttur íþróttakennara, og hefur hlaupið verið nýtt til að minna á mikilvægi þess að allir hreyfi sig á sínum forsendum, samstöðu og að konur eigi ánægjulega samverustund á hlaupadag. Hlaupið var einnig nýtt til þess að koma á framfæri mikilvægum málefnum er vörðuðu konur, í samstarfi við ýmsa aðila í gegnum árin. Hlaupið hefur verið árviss viðburður hjá mörg þúsund manns um allt land, sem og erlendis. Það er fyrst og fremst þátttakendum og öllum þeim fjölmörgu framkvæmdaraðilum sem haldið hafa utan um hlaupið að þakka að árangurinn hefur orðið eins góður og raun ber vitni.

Allt hefur hins vegar sinn tíma og í ljósi þess að tíðarandinn hefur breyst frá því að hlaupið var fyrst haldið og upphaflegum markmiðum þess hefur verið náð, hefur nú verið tekin ákvörðun um að leggja hlaupið niður. 

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Sjóvá þakka framkvæmdaraðilum og þeim fjölmörgu sem tekið hafa þátt í hlaupinu í gegnum tíðina kærlega fyrir samfylgdina og virka þátttöku þeirra í að efla heilsu og samstöðu kvenna.

Um leið eru landsmenn hvattir til reglubundinnar hreyfingar og að hlúa vel að líkamlegri og andlegri heilsu, til dæmis með því að taka þátt í þeim fjölmörgu skipulögðu hlaupum sem í dag eru í boði um allt land. Munum að öll hreyfing skiptir máli!

ÍSÍ og Sjóvá ganga stolt frá verkefninu og munu áfram vinna ötullega að því að jafna möguleika allra einstaklinga á landinu til heilsu og hreyfingar. Áframhaldandi vinna í þá átt verður byggð á grunni þess glæsilega árangurs sem samstilltar konur hafa unnið í nafni hlaupsins í meira en þrjá áratugi, konur sem létu ekkert stöðva sig og efldu markvisst lýðheilsu íslenskra kvenna.