Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Vel heppnað þjálfaranámskeið í bogfimi í samstarfi við Ólympíusamhjálpina

10.08.2022

 

Þjálfaranámskeið á stigi eitt hjá World Archery (WA -Alþjóðabogfimisambandið) var haldið af Bogfimisambandi Íslands (BFSÍ) í Bogfimisetrinu dagana 2.-7. ágúst. Þjálfari á námskeiðinu var Grikkinn Christos Karmoiris sem valinn var af WA og var hann einnig prófdómari ásamt Guðmundi Erni Guðjónssyni, íþróttastjóra BFSÍ.

Aðildarfélög BFSÍ voru hvött til að velja þátttakendur á námskeiðið sem eru nú þegar virkir í starfi innan félaganna, til þess að þekkingin skili sér sem best til iðkenda í íþróttinni. Þetta skilaði sterkum og áhugasömum þátttakendum sem allir stóðust kröfur námskeiðsins með sóma. Alls sátu 11 þátttakendur námskeiðið, á aldrinum 14 ára til rúmlega sextugs. 

Christos Karmoiris var mjög ánægður með aðstöðuna í Bogfimisetrinu og það grasrótarstarf sem þar er unnið og taldi það einsdæmi á heimsvísu. Hann bað um leyfi til að nota Ísland sem gott fordæmi og sniðmát fyrir Grikkland og aðrar þjóðir í grasrótarstarfi þar sem hann vinnur að uppbyggingu og þróun. 

Námskeiðið var styrkt af Ólympíusamhjálpinni með aðstoð ÍSÍ.

Myndir með frétt