Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Ungur sendifulltrúi á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar

02.08.2022

 

Samhliða Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) fer árlega fram verkefni sem kallast á ensku "The European Young Olympic Ambassador (EYOA) programme". Verkefnið er á vegum Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC) og fór það nú fram í fimmta sinn á EYOF í Banská Bystrica í Slóvakíu. Þar koma saman ungir sendifulltrúar á aldrinum 18-25 frá ýmsum þjóðum Evrópu til þess að koma á framfæri ólympísku hugsjóninni um það að gera ávallt sitt besta, vinskap og virðingu (e. excellence, friendship and respect). Ungu sendifulltrúarnir fá kennslu og þjálfun frá EOC og setja upp tjöld og stöðvar á keppnissvæðinu þar sem þátttakendur geta komið við og fengið tækifæri til þess að taka þátt í leikjum og í leiðinni kynnast ólympísku hugsjóninni og keppendum frá öðrum löndum. 

Ísland átti einn sendifulltrúa á þessum leikum, hana Sonju Margréti Ólafsdóttur. Sonja er tvítug fimleikastúlka úr Kópavoginum sem keppti á EYOF þegar hátíðin fór fram í Györ í Ungverjalandi árið 2017. Sonja starfar sem stuðningsfulltrúi með börnum í Urriðaskóla og þjálfar fimleika hjá Gerplu ásamt því að stunda æfingar af kappi sjálf. 

Árið 2019 áttu Íslendingar einnig fulltrúa, hana Kristínu Valdísi Örnólfsdóttur sem sjálf var keppandi á listskautum á vetrar EYOF árið 2015. Kristín Valdís stundar nám í læknisfræði og hefur samhliða því vaxið og dafnað í þessu hlutverki sem ungur sendifulltrúi. Kristín Valdís er nú svokallaður "alumni" í þessu verkefni hjá EOC og er fengin inn til þess að leiðbeina og kenna nýjum ungum sendifulltrúum. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá þær Sonju og Kristínu Valdísi sem voru Íslandi til sóma í þessum hlutverkum á EYOF í Banská Bystrica.