Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Í mörg horn að líta hjá formanni EOC EYOF nefndarinnar

02.08.2022

 

Líney Rut Halldórsdóttir fyrrverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ og nú ráðgjafi hjá sambandinu er formaður EOC EYOF Commission, sem er yfirnefnd yfir Ólympíuhátíðum Evrópuæskunnar. Nefndin er eftirlitsnefnd með framkvæmd hátíðarinnar og gegnir ábyrgðarmiklu starfi við undirbúning og framkvæmd þessara verkefna Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC).

Líney Rut var í Banská Bystrica í Slóvakíu á hátíðinni sem er nýafstaðin og sinnti þar mörgum verkefnum, bæði sem formaður ofangreindrar nefndar og sem stjórnarmaður í EOC. Haldinn var stjórnarfundur hjá EOC á meðan á hátíðinni stóð en Líney Rut sinnti einnig verðlaunaafhendingum til keppenda og sat margvíslega fundi, bæði með fararstjórum og skipulagsnefndum, sem tengdust framkvæmd leikanna. Á hátíðum sem þessum eru fyrstu dagarnir alltaf helsta áskorunin, þegar verið er að koma öllum fyrir, láta reyna á mötuneytið og ferðir á milli svæða. Eftir það er flest komið í góða rútínu og búið að lagfæra þá agnúa sem koma fram í fyrstu.

Einnig var fundað með gestgjafaþjóðum næstu hátíða, þ.e. vetrarhátíðar sem haldin verður í Friuli Venezia Guilia á Ítalíu og sumarhátíðar sem haldin verður í Maribor í Slóveníu. Báðar hátíðirnar verða haldnar á næsta ári. Venjulega eru hátíðirnar haldnar annað hvert ár en vegna kórónuveirufaraldursins var hátíðunum 2021 frestað til ársins í ár.

Líney Rut var íslenska hópnum innan handar á hátíðinni, eftir þörfum, enda öllum hnútum kunnug í verkefnum sem þessum eftir að hafa verið aðalfararstjóri ÍSÍ í fjölmörgum ólympískum verkefnum í gegnum tíðina. 

Líney Rut: „Ólympíuhátíðin í Slóvakíu gekk vel í alla staði og var vel skipulögð af gestgjöfunum. Íslenski hópurinn var til mikils sóma, bæði innan vallar sem utan og einnig var frábært að sjá hversu margir foreldrar voru á staðnum til að styðja íslensku þátttakendurna í keppni.“

Myndir með frétt