Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Breytt skipulag á skrifstofu ÍSÍ

07.07.2022

 

Á þessu ári eru 25 ár frá því að Íþróttasamband Íslands og Ólympíunefnd Íslands voru sameinuð í Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Frá þeim tíma hefur starfsemi ÍSÍ verið skipt upp í þrjú stoðsvið sem hafa haldið utan um afreksíþróttastarfið, almenningsíþróttir og fræðslu-, útbreiðslu- og þróunarstarf. Nöfn sviða hafa tekið breytingum á þessum árum og verkefni færst á milli sviða en ekki hefur verið um veigamiklar breytingar að ræða.

Á síðustu 10 árum hefur margt breyst hvað viðkemur íþróttastarfi og eru aðrar þarfir og áskoranir í umhverfinu sem starfsemi og skipulag ÍSÍ þarf að taka mið af. Þjóðfélagið hefur tekið miklum breytingum og í kjölfar heimsfaraldurs bíða jafnframt fjölmörg ný tækifæri fyrir íþróttahreyfinguna. Lýðheilsumál eru ofarlega í forgangsröðun stjórnvalda og þá eru málefni afreksíþrótta og afreksíþróttafólks aðkallandi.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur unnið að nýrri framtíðarsýn fyrir starfsemi ÍSÍ og mótun þeirra áherslna sem eiga að vera til staðar í starfinu. Nýtt skipulag felur í sér töluverðar breytingar á skrifstofu ÍSÍ með það að markmiði að efla starfsemina enn frekar gagnvart þeim áskorunum og tækifærum sem bíða á komandi misserum. Skipulagið eykur samvinnu á milli verkefnasviða og mun skapa betra flæði starfsmanna á milli verkefna hverju sinni.

Nýtt svið verður til á skrifstofu ÍSÍ sem sér um stjórnsýslu íþróttahreyfingarinnar. Innan þess sviðs heyra málefni sem snúa að skipulagi og uppbyggingu íþróttahreyfingarinnar, góðum stjórnunarháttum, samskipti við opinbera aðila o.fl.

Aukinn kraftur verður jafnframt settur í markaðs- og kynningarmál sambandsins sem verður eitt af þemur fagsviðum ÍSÍ. Þriðja fagsviðið heldur utan um fjármál, rekstur og upplýsingatækni og það svið mun tengjast inn í flest þau verkefni sem unnin eru innan skrifstofu ÍSÍ. Með þessum breytingum verða núverandi Almenningsíþróttasvið og Þróunar- og fræðslusvið ÍSÍ sameinuð í nýtt svið sem fer með lýðheilsu- og útbreiðslumál. Ætlunin er að efla enn frekar vinnu sambandsins að þessum málaflokkum og koma til móts við þarfir íþróttahreyfingarinnar og samfélagsins.

Núverandi Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ mun taka breytingum en einblína áfram á málefni afreksíþrótta, s.s. þá leika sem eru á næstu misserum, réttindamál afreksíþróttafólks og umhverfi þeirra.

Á næstu þremur mánuðum mun innleiðing á þessum breytingum eiga sér stað, s.s. með tilfærslu starfsfólks á milli sviða, breytingu á starfsheitum, verkefnaskiptingu sem tekur mið af nýjum áherslum og breytingum á húsnæði. Áætlað er að auglýsa nokkur störf sem verða til samhliða þessum breytingum og þeim breytingum sem hafa átt sér stað á starfsmannahaldi á síðustu mánuðum.

Frekari kynning á framtíðarsýn og áherslum ÍSÍ mun eiga sér stað í haust.