Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

ÍBR með Regnbogavottun Reykjavíkurborgar

15.06.2022

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), fjölmennasta íþróttahéraðið innan ÍSÍ, fékk nýlega Regnbogavottun Reykjavikurborgar. Markmiðið með vottuninni er að gera starfsemi Reykjavíkurborgar hinseginvænni, bæði fyrir starfsfólk og þjónustuþega og þannig koma í veg fyrir beina og óbeina mismunun í garð hinsegin fólks.

Starfsfólk skrifstofu ÍBR tók þátt í fræðslu um hinsegin málefni, stjórnendur fyltu út spurningalista og gerð var úttekt á skrifstofu ÍBR og vefsíðum. ÍBR er með virka jafnréttisáætlun og mannréttindaáætlun þar sem meðal annars er fjallað um hinsegin málefni.

Fræðslan er þungamiðjan í Regnbogavottuninni. Hún er útbúin sérstaklega til að henta þeirri starfsemi sem um ræðir á hverjum stað fyrir sig og í heildina er um að ræða 4,5 klst. af fræðslu. Fræðslan byggir á ýmsum skemmtilegum verkefnum um hinseginleika en hún beinist einnig að því að skoða með hvaða hætti hver og einn vinnustaður geti verið hinseginvænni.

Öll íþróttafélög innan ÍBR munu fá hinseginfræðslu frá Samtökunum '78 á haustmánuðum, fyrir starfsfólk og þjálfara. Í frétt á heimasíðu ÍBR kemur fram að bandalagið hefur hvatt aðildarfélög sín til að feta í sömu fótspor og fara í gegnum vottunarferlið.