Starfsamt ársþing FSÍ
Ársþing Fimleikasambands Íslands (FSÍ) fór fram í Háskólanum í Reykjavík 23. apríl síðastliðinn. Valdimar Leó Friðriksson var kjörinn þingforseti og Fjóla Þrastardóttir og Helga Svana Ólafsdóttir voru kjörnar þingritarar. Kjörbréf bárust frá 12 félögum og fóru félögin með 34 atkvæði.
Þingið gekk vel fyrir sig og voru áritaðir reikningar sambandsins samþykktir samhljóða. Fjórar starfsnefndir voru starfræktar á þinginu; fjárhagsnefnd, mótanefnd, laganefnd og afreksnefnd. Þar fóru fram miklar og góðar umræður.
Kosið var um þrjú stjórnarsæti og hlutu Stefanía Reynisdóttir, Sigurbjörg Fjölnisdóttir og Þór Ólafsson kosningu í þau sæti. Aðrir í stjórn eru Kristján Arason formaður sambandsins, Axel Þór Eysteinsson, Halldóra Sigríður Guðvarðardóttir og Magnús Heimir Jónasson. Í varastjórn voru kjörnar þær Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir og Marta Sigurjónsdóttir.
Mikill uppgangur hefur verið í fimleikaíþróttinni á landsvísu síðastliðin ár og er mikill hugur í fimleikahreyfingunni fyrir komandi misseri.
Olga Bjarnadóttir úr framkvæmdastjórn ÍSÍ og Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ sóttu þingið fyrir hönd ÍSÍ. Þau fluttu bæði ávörp á þinginu, sem og fleiri gestir.