Formannsskipti á ársþingi Hrafna-Flóka
Ársþing Héraðssambandsins Hrafna-Flóka (HHF) fór fram í félagsheimilinu á Patreksfirði í gær, 5. apríl. Eftir venjuleg þingstörf, skýrslu stjórnar, kynningu á ársreikningum og fjárhagsáætlun næsta árs fóru nefndarstörf fram. Unnið var í mótanefnd og kjörbréfanefnd og gerðu nefndirnar svo grein fyrir sínum störfum. Að því loknu komu fulltrúar aðildarfélaga í pontu og lásu upp úr ársskýrslum sinna félaga og gerðu þar með grein fyrir starfsemi síðasta árs.
Formannsskipti urðu á þinginu, en Margrét Brynjólfsdóttir sem gegnt hefur starfi formanns HHF undanfarin ár gaf ekki kost á sér áfram og tók Marion Worthmann við embættinu en hún gegnir jafnframt stöðu formanns í Ungmennafélagi Tálknafjarðar.
Ragnhildur Skúladóttir sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ var fulltrúi sambandsins á þinginu og ávarpaði við þingsetningu. Kristrún Guðjónsdóttir var sæmd Gullmerki ÍSÍ fyrir áralöng störf í stjórn HHF og stjórnarsetu í Ungmennafélagi Tálknafjarðar. Ágætis mæting var á þingið, umræður góðar og greinilegt að það var hugur í fólki að eiga í vændum sumar án takmarkana.