Sigríður Bjarnadóttir sæmd Gullmerki ÍSÍ
Sigríður Bjarnadóttir, fyrrverandi formaður Badmintonsambands Íslands (BSÍ) var sæmd Gullmerki ÍSÍ á 100. ársþingi Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB), 31. mars sl., fyrir góð störf í þágu badmintoníþróttarinnar á Íslandi og íþrótta á svæði UMSB.
Sigríður hefur starfað innan íþrótta- og ungmennahreyfingarinnar til fjölda ára, sinnt ýmsum leiðtogastörfum og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín í hreyfingunni. Hún var formaður BSÍ 2005-2011, gjaldkeri UMSB um tíma og er í dag formaður körfuknattleiksdeildar Umf. Skallagríms í Borgarnesi, svo eitthvað sé nefnt.
Árið 2011 var Sigríður valin í nefnd á vegum Evrópska badmintonsambandsins sem bar heitið „European Women in Badminton”, og hafði að markmiði að efla stöðu kvenna á öllum sviðum badmintoníþróttarinnar, þ.e. meðal iðkenda, keppenda, þjálfara, dómara og leiðtoga, svo eitthvað sé nefnt. Sigríður var valin ásamt 11 öðrum konum víðs vegar úr Evrópu og var það mikill heiður fyrir badmintoníþróttina hér á landi að eiga fulltrúa í nefndinni.
Garðar Svansson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ afhenti Sigríði heiðursviðurkenninguna á ársþinginu.