Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

EYWOF - Viðburðaríkur annar keppnisdagur

23.03.2022

Það var nóg að gera hjá íslenska hópnum á EYOWF í Vuokatti í Finnlandi í gær. Keppt var í þremur greinum, svigi, Big Air og 7,5 km skíðagöngu með hefðbundinni aðferð.

Björn Davíðsson, Jón Erik Sigurðsson, Kristmundur Ómar Ingvason og Pétur Reidar Kolsöe Pétursson kepptu í svigi karla. Pétur Reidar Pétursson lauk keppni í 51. sæti en Björn, Jón Erik og Kristmundur náðu ekki að ljúka keppni. Aðstæður voru frábærar í morgun eftir frost næturinnar og færið í brautinni hélst gott út alla keppnina.

Aðalheiður Dís Stefánsdóttir, Arnór Dagur Þóroddsson, Bjartur Snær Jónsson, Einar Ágúst Ásmundsson og Stefán Jón Ólafsson kepptu í Big Air á snjóbretti. Í Big Air fara keppendur tvær ferðir og stökkva á stórum stökkpalli og gildir stiga hærra stökkið. Stökkpallurinn var gríðarlega stór og flottur og er töluvert meiri áskorun að stökkva á þeim palli heldur en þeim sem notaðir eru til keppni á Íslandi. Aðalheiður var fyrst Íslendinganna til þess að stökkva, hún stóð sig vel og hafnaði í 12. sæti. Arnór Dagur reyndi við gríðarlega erfitt stökk en féll í lendingunni sem lækkaði stigagjöfina. Gott fyrsta stökk Bjarts Snæs skilaði honum í 15. sæti, Einar Ágúst féll í báðum sínum stökkum enda með hátt erfiðleika stig, en gerði engu að síður vel og vantaði lítið upp á. Stefán Jón átti tvö góð stökk og hafnaði í 18. sæti.

Annan daginn í röð kepptu Einar Árni Gíslason, Ólafur Pétur Eyþórsson, Sveinbjörn Orri Heimisson og Ævar Freyr Valbjörnsson í skíðagöngu. Gengu 7,5 km með hefðbundinni aðferð. Brautin var krefjandi og gerði blautur snjórinn það að verkum að færið í brautinni var erfitt. Ævar Freyr kom í mark á tímanum 25:08:05 sem skilaði honum 66. sæti, Einar Árni Gíslason hafnaði í 68. sæti á tímanum 25:52:05, Sveinbjörn Orri Heimisson var í 69. sæti á tímanum 26:45:00 og Ólafur Pétur Eyþórsson í 72. sæti á tímanum 27:59:50.

Eftir hádegi kepptu Guðbjörg Eva Guðmundsdóttir, Jóhanna Lilja Jónsdóttir, Karen Júlía Arnarsdóttir  og Signý Sveinbjörnsdóttir í svigi. Stelpurnar náðu allar að ljúka fyrri ferð en Karen hlekktist á í seinni ferðinni og náði ekki að ljúka keppni. Jóhanna Lilja Jónsdóttir hafnaði í 37. sæti, Signý Sveinbjörnsdóttir í 43. sæti og Guðbjörg Eva Guðmundsdóttir í 47. sæti.

Keppendur í alpagreinum taka ekki þátt í samhliðasvigi og keppni þeirra því lokið. Alpagreina hópurinn ferðast til Íslands á miðvikudaginn til að taka þátt í skíðamóti Íslands. 

Mikil ánægja var með daginn, stemningin góð og veðrið lék við keppendur. 

Miðvikudaginn 24. mars er komið að fyrstu keppni hjá listskautakonunni Júlíu Rós Viðarsdóttur þegar hún keppir í stuttu prógrammi. Keppnin hefst klukkan 16:30 og er Júlía Rós númer 3 í röðinni.

Hægt er að fylgjast með beini útsendingu frá keppni í listskautum hér 

Dagskrá leikanna og streymiupplýsingar má finna hér.

Myndir með frétt