Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Heiðranir ÍSÍ á ársþingi UMSS

15.03.2022

 

Ómar Bragi Stefánsson var sæmdur Gullmerki ÍSÍ á ársþingi UMSS um helgina fyrir störf í þágu íþrótta, bæði á svæði UMSS og landsvísu. Ómar Bragi kenndi íþróttir Sauðárkróki í nokkur ár, starfaði sem menningar- íþrótta- og æskulýðsfulltrúi í nokkur ár en hefur starfað fyrir UMFÍ allt frá árinu 2003 og til dagsins í dag. Hann hefur í því starfi m.a. stýrt yfir 25 Landsmótum UMFÍ. Ómar Bragi hefur setið í stjórn Umf. Tindastóls og var formaður knattspyrnudeildar félagsins í um 25 ár. Hann sat einnig í stjórn KSÍ og hefur tekið að sér margvísleg trúnaðarstörf fyrir íþróttahreyfinguna í gegnum tíðina.

Við sama tækifæri var Gunnar Sigurðsson sæmdur Silfurmerki ÍSÍ fyrir störf sín í þágu frjálsíþrótta. Gunnar hefur verið viðloðandi frjálsíþróttahreyfinguna frá unga aldri, var keppandi í frjálsíþróttum og síðar þjálfari hjá Ungmenna- og íþróttafélaginu Smára í Varmahlíð. Gunnar átti sæti í stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands um tíma, verið virkur á ársþingum UMSS og gegnt ýmsum hlutverkum á vettvangi frjálsíþrótta í gegnum tíðina.

Það var Garðar Svansson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sem afhenti heiðursviðurkenningarnar á ársþinginu og er myndin tekin við það tækifæri. Frá vinstri: Garðar Svansson, Gunnar Sigurðsson og Ómar Bragi Stefánsson.

ÍSÍ óskar þeim Ómari Braga og Gunnari til hamingju með viðurkenningarnar.