Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Vanda kjörin formaður KSÍ til tveggja ára

28.02.2022

 

76. ársþing KSÍ fór að þessu sinni fram á Ásvöllum í Hafnarfirði í glæsilegum íþróttasal Hauka, Ólafssal, sem kenndur er við Ólaf E. Rafnsson, fyrrverandi forseta ÍSÍ. Þingið gekk vel undir stjórn þingforsetanna Þóris Haraldssonar og Helgu Guðrúnar Guðjónsdóttur.

Vanda Sigurgeirsdóttir var endurkjörin formaður KSÍ til tveggja ára með 105 atkvæði eða 70,47% atkvæða. Mótframbjóðandi hennar, Sævar Pétursson, hlaut 44 atkvæði eða 29,53% atkvæða.
Vanda var fyrst kvenna til að taka við embætti formanns í aðildarsambandi UEFA þegar hún tók við í haust að loknu aukaársþingi sambandsins. Hún á að baki langan feril sem leikmaður og þjálfari í knattspyrnu og er eina konan sem hefur þjálfað meistaraflokk karla í knattspyrnu á Íslandi.

Með Vöndu í stjórn næstu tvö árin eru: Borghildur Sigurðardóttir, Ívar Ingimarsson, Pálmi Haraldsson og Sigfús Kárason.  Til eins árs voru kjörin:  Guðlaug Helga Sigurðardóttir, Helga Helgadóttir, Torfi Rafn Halldórsson og Unnar Stefán Sigurðsson.

Í varastjórn voru kjörin Halldór Breiðfjörð Jóhannsson, Kolbeinn Kristinsson og Tinna Hrund Hlynsdóttir.

Landshlutafulltrúar voru kjörin:  Eva Dís Pálmadóttir fyrir Austurland, Oddný Eva Böðvarsdóttir fyrir Vesturland, Ómar Bragi Stefánsson fyrir Norðurland og Trausti Hjaltason fyrir Suðurland. Varalandshlutafulltrúar voru kjörnir:  Guðmundur Bj. Hafþórsson fyrir Austurland, Sigrún Ólafsdóttir fyrir Vesturland, Brynjólfur Sveinsson fyrir Norðurland og Sævar Þór Gíslason fyrir Suðurland.

Á þinginu voru samþykktar breytingar á mótafyrirkomulagi í efstu deild karla og kvenna og 1. deild karla. Deildum í karlakeppninni verður fjölgað sumarið 2023 og KSÍ mun einnig setja af stað bikarkeppni neðri deilda árið 2023. Sjá nánar á vef KSÍ.

Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ ávarpaði þingið við þingsetningu. Aðrir fulltrúar frá ÍSÍ voru Hafsteinn Pálsson 2. varaforseti ÍSÍ og Valdimar Leó Friðriksson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ.