Hólmfríði Dóru gekk vel í sviginu
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir keppti í svigi í nótt á Yanqing keppnissvæðinu á Vetrarólympíuleikunum. Til keppni voru skráðir 88 keppendur og var Hólmfríður Dóra með rásnúmerið 62. Hún skíðaði fyrri ferðina á 57,39 sek. og var þá í 43. sæti en vann sig svo upp um fimm sæti í seinni ferðinni sem var hraðari en sú fyrri eða 56,48 sek. Samanlagður tími var því 1:53,87 mín. Alls voru 88 keppendur skráðir til leiks í sviginu en aðeins 60 luku fyrri ferðinni. Brautin reyndist mörgum erfið, þar á meðal bandarísku stórstjörnunni Mikaela Shiffrin sem féll úr keppni í fyrri ferðinni. Aðeins 50 keppendur náðu að ljúka keppni.
Sigurvegari í svigi kvenna var Petra Vlhova frá Slóvakíu sem hefur verið ósigrandi í heimsbikarnum í vetur. Petra var með 8. besta tímann í fyrri ferðinni en skíðaði svo enn betur í seinni ferðinni á tímanum 52.09 sek og samanlögðum tíma 1:44,98 mín. Þetta eru hennar fyrstu Ólympíuverðlaun. Önnur var Katharina Liensberger frá Austurríki og þriðja Wendi Holdener frá Sviss.
Flottur dagur hjá Hólmfríði Dóru og óskum við henni til hamingju með árangurinn.