Fyrstu íslensku keppendurnir komnir til Peking
Þau Snorri, Isak og Kristrún, sem öll keppa á gönguskíðum, komu ásamt þjálfurum og flokksstjóra skíðahópsins til Peking í dag eftir langt ferðalag frá Íslandi og Noregi. Þau verða búsett á Zhangjiakou svæðinu fyrir norðan Peking en þar er keppt í skíðaskotfimi, skíðafimi, snjóbrettagreinum, skíðastökki og skíðagöngu. Norðmenn eru næstu nágrannar hópsins og er það frábært þar sem mikil norsk tenging er hjá íslenska liðinu.
Það tekur um 90 mínútur að aka á milli Zhangjiakou Ólympíuhópsins og Yanqing Ólympíuþorpsins þar sem keppendur og aðstoðarfólk alpagreina eru staðsett. Aðalfararstjóri íslenska hópsins er einnig staðsettur í Yanqing. Þar var í morgun heiður himinn og sólríkt veður en nokkuð kalt eða 8°C í morgunsárið.
Næstu dagar fara í aðlögun og æfingar enda bara vika í setningu leikanna.