Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Íþróttamaður ársins 2021

29.12.2021

Samtök íþróttafréttamanna tilkynntu í kvöld, í beinni útsendingu á RÚV, niðurstöðu í kjöri íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2021.  Samtökin hafa staðið fyrir kjörinu frá 1956 og í ár voru það 29 íþróttafréttamenn í fullu starfi frá átta fjölmiðlum sem greiddu atkvæði. Þau tíu sem höfnuðu í efstu sætunum í kjörinu voru: Aron Pálmarsson handknattleiksmaður, Bjarki Már Elísson handknattleiksmaður, Júlían J.K. Jóhannsson kraftlyftingamaður, Kári Árnason knattspyrnumaður, Kolbrún Þöll Þorradóttir fimleikakona, Kristín Þórhallsdóttir kraftlyftingakona, Martin Hermannsson körfuknattleiksmaður, Ómar Ingi Magnússon handknattleiksmaður, Rut Arnfjörð Jónsdóttir handknattleikskona og Sveindís Jane Jónsdóttir knattspyrnukona. 

Það var svo Ómar Ingi Magnússon handknattleiksmaður sem varð efstur í kjörinu og hlaut þann eftirsótta titil, Íþróttamaður ársins 2021. Ómar Ingi keppir með Magdeburg í Þýskalandi. Hann var valinn í lið ársins í Þýskalandi. Í haust hefur Ómar Ingi verið mikilvægur fyrir Magdeburg, sem trónir taplaust á toppi þýsku deildarinnar enda meðal markahæstu og bestu leikmanna í deildinni. Magdeburg vann Evrópudeildina í handknattleik og heimsmeistaramót félagsliða þar sem liðið vann Barcelona í úrslitum. Þetta var í fyrsta sinn sem Ómar Ingi er meðal tíu efstu í kjörinu til Íþróttamanns ársins.

Í kjöri um Lið ársins 2021 voru íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum, meistaraflokkur kvenna í handknattleik hjá KA/Þór og meistaraflokkur karlaí knattspyrnu hjá Knattspyrnufélaginu Víkingi. Það var kvennalandsliðið í hópfimleikum sem tók titilinn að þessu sinni en það vann langþráðan Evrópumeistaratitil í Portúgal í nóvember síðastliðnum, eftir harða keppni við sigursælt lið Svíþjóðar.

Í kjöri um Þjálfara ársins 2021 voru Arnar Bergmann Gunnlaugsson knattspyrnuþjálfari karlaliðs Knattspyrnufélagsins Víkings, Vésteinn Hafsteinsson kastþjálfari í frjálsíþróttum og Þórir Hergeirsson þjálfari kvennaliðs Noregs í handknattleik. Sigur úr býtum bar Þórir Hergeirsson. Hann gerði Noreg að Evrópumeisturum í desember 2020, bronsverðlaunahafa á Ólympíuleikunum í Tókýó og að heimsmeisturum 2021 nú í desember 2021. Þórir hefur stýrt Norðmönnum til sigurs á átta stórmótum, fjórum sinnum á EM, þrisvar á HM og einu sinni á ÓL.

ÍSÍ óskar ofangreindum innilega til hamingju með afrekin og árangurinn á árinu 2021.

 

Myndir með frétt