Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

ÍSÍ með þrjá fulltrúa í nefndum EOC næstu fjögur árin

22.12.2021

Evrópusamband Ólympíunefnda (EOC) hefur skipað í nefndir og ráð sambandsins til næstu fjögurra ráða og á Íslandi fulltrúa í þremur þeirra.

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ var skipaður í EOC EU Commission en Lárus átti einnig sæti í nefndinni síðasta starfstímabil hennar.
Líney Rut Halldórsdóttir, ráðgjafi hjá ÍSÍ og stjórnarmaður EOC stýrir EOC EYOF Commission sem er yfirnefnd Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar.
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir meðlimur í framkvæmdastjórn ÍSÍ var skipuð í EOC Gender Equity Commission.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ:
„Undanfarin ár þá höfum við verið sýnileg í starfi EOC, átt fulltrúa í stjórn sambandsins, tekið virkan þátt í flestum þeirra verkefnum og látið rödd okkar heyrast. Það er að skila sér í úthlutun í nefndir EOC þar sem okkur er treyst til þess að taka virkan þátt í mótun, framkvæmd og eftirfylgni mikilvægra málaflokka innan sambandsins. Það er mikilvægt að geta komið beint að starfi EOC með þessum hætti og bæði lært af öðru nefndarfólki og miðlað af okkar reynslu úr starfinu hér heima.“

Allar nefndirnar halda utan um mikilvæga málaflokka í sambandinu og er ÍSÍ afar stolt af því að eiga fulltrúa í þeim.  Nefndir EOC eru 9 talsins og innan sambandsins eru 50 Ólympíunefndir í Evrópu svo að fjöldi íslenskra nefndarmanna er eftirtektarverður og ekki síður formennska Líneyjar Rutar Halldórsdóttur í EOC EYOF Commission, en sú nefnd hefur stór, oft flókin og ábyrgðarmikil verkefni til úrlausnar.