Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Ólympíuhópur ÍSÍ þegar 50 dagar eru í leika

16.12.2021

Í dag eru 50 dagar þangað til að Vetrarólympíuleikarnir í Peking í Kína hefjast. Leikarnir standa yfir dagana 4.-20. febrúar á næsta ári.

ÍSÍ og Skíðasamband Íslands (SKÍ) hafa skilgreint svokallaðan Ólympíuhóp keppenda vegna leikanna. Um er að ræða þá aðila sem stefna að þátttöku, vinna markvisst að því að tryggja sér keppnisrétt á leikana og standa fremstir í sínum greinum og  sem SKÍ telur að eigi möguleika á þátttöku m.a. með því að vinna sér þátttökurétt í gegnum úrtökumót. Íslenski hópurinn sem keppir á leikunum í febrúar verður svo tilkynntur formlega þegar nær dregur leikum.

Á síðustu leikum átti Ísland einn keppanda af hvoru kyni í alpagreinum, og í skíðagöngu voru tveir karlar og ein kona. Miðað við núverandi stöðu á heimslistum má búast við því að fjöldi keppenda með keppnisrétt verði svipaður, auk þess sem vonir eru bundnar við keppendur í snjóbrettum. Kvótar eru á keppnisréttum og eru þeir misjafnir eftir greinum. Erfiðara er að vinna sér inn keppnisrétt nú en áður vegna breytinga á lágmörkum. Einnig hefur verið erfiðara að ferðast og sækja mót erlendis sökum heimsfaraldurs.

Þeir sem skipa Ólympíuhóp ÍSÍ á þessari stundu eru:

Alpagreinar
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir
Katla Björg Dagbjartsdóttir
María Finnbogadóttir
Sturla Snær Snorrason

Skíðaganga 

Albert Jónsson
Dagur Benediktsson
Isak Stiansson Pedersen
Kristrún Guðnadóttir
Snorri Einarsson

Snjóbretti 
Baldur Vilhelmsson
Benedikt Friðbjörnsson
Marinó Kristjánsson

Á vefsíðu leikanna má finna ýmsar upplýsingar um leikana sem verða, líkt og Sumarólympíuleikarnir í Tókýó, um margt sérstakir vegna kórónuveirufaraldursins. Aðgangur erlendra gesta verður mjög takmarkaður og umtalsverðar takmarkanir verða vegna sóttvarna.