Íslenskt íþróttafólk gerir það gott á mótum
Anna Guðrún Halldórsdóttir lyftingakona varð Evrópumeistari í ólympískum lyftingum í Alkmaar 18. október sl. en hún setti á mótinu tvö heimsmet og þrjú Evrópumet. Anna Guðrún keppir í 81 kg flokki 50 ára og eldri og var þetta hennar fyrsta alþjóðlega mót! Helga Hlín Hákonardóttir keppti á sama móti og hafnaði í 2. sæti í 59 kg flokki 45 ára og eldri. Glæsilegur árangur!
Norðurlandamótið í skylmingum fór fram í Espoo í Finnlandi um síðastliðna helgi. Íslensku keppendurnir níu kepptu allir með höggsverði og stóðu sig afar vel á mótinu.
Sævar Baldur Lúðvíksson varð Norðurlandameistari karla eftir hafa unnið úrslitaviðureign við Gunnar Egil Ágústsson 15:12. Þannig að gull og silfur fóru til þeirra. Sævar og Gunnar urðu svo Norðurlandameistarar í sveitakeppninni, ásamt þeim Jakobi Lars Kristmannssyni og Emil Ísleifi Sumarliðasyni.
Anna Edda Gunnarsdóttir Smith fékk síðan bronsverðlaun í keppni kvenna með höggsverð.
Það er líka ástæða til að nefna góðan árangur Arnars Davíðs Jónssonar úr Keilufélagi Reykjavíkur sem varð í 2. sæti á Brunswick Open 2021 mótinu í Wittelsheim í Frakklandi fyrr í mánuðinum en mótið er hluti af Evrópsku mótaröðinni í keilu. Arnar Davíð, sem kom sér upp í 1. sætið fyrir lokaúrslitin, laut lægra haldi gegn Svíanum Carl Eklund í tveimur leikjum 245 gegn 244 og svo 213 gegn 258. Engu að síður glæsilegur árangur hjá Arnari Davíð en eins og kunnugt er þá sigraði hann mótaröðina fyrstur Íslendinga árið 2019.
Til viðbótar er gaman að segja frá því að Aldís Kara Bergsdóttir tryggði sér keppnisrétt á Evrópumóti Aljóðaskautasambandsins, fyrst íslenskra skautara. Mótið fer fram í janúar 2023. Frábær árangur hjá Aldísi Köru.
ÍSÍ óskar ofangreindu íþróttafólki innilega til hamingju með glæsilega frammistöðu.