Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

Starfssömu Íþróttaþingi ÍSÍ lauk um helgina

11.10.2021

 

Framhaldsþing 75. Íþróttaþings ÍSÍ fór fram í Gullhömrum í Grafarholti laugardaginn 9. október. Íþróttaþing ÍSÍ er æðsti vettvangur íslenskrar íþróttahreyfingar þar sem helstu hagsmunamál hreyfingarinnar eru rædd og tekin afstaða til. Á tímum kórónuveirufaraldursins hafa fundir verið nær einungis haldnir í gegnum fjarbúnað og því var kærkomið fyrir sambandsaðila og forystu ÍSÍ að fá loks tækifæri til að hittast. Þingnefndir störfuðu síðdegist á föstudag í Íþróttamiðstöðinni og var mikið undirbúningsstarf unnið þar sem létti á þingstörfunum á laugardag. Við þingsetningu voru afhentar ýmsar heiðursviðurkenningar og útnefnt í Heiðurshöll ÍSÍ, sem lesa má um hér í sér fréttamolum á heimasíðu sambandsins.

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ ávarpaði þingið og tæpti á því helsta sem drifið hefur á daga íþróttahreyfingarinnar frá því að fyrri hluti þingsins fór fram, í maí síðastliðnum. Hann ræddi meðal annars þau mál sem upp hafa komið undanfarna mánuði, í tengslum við landslið KSÍ, viðbrögð hreyfingarinnar og vinnslu á úrlausnum. Hann skýrði frá þeim starfshópum sem nú þegar eru að störfum og skila af sér á næstu mánuðum og þeirri miklu áherslu sem lögð er á að skerpa verkferla, skapa heimildir og úrræði fyrir alla hreyfinguna svo að tryggja megi betur öryggi allra þátttakenda í hreyfingunni.

Sjö tillögur lágu fyrir þinginu og þrjár tillögur urðu til í meðförum þingnefnda sem störfuðu síðdegis í gær í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Innan skamms verða birtar allar samþykktir þingsins á upplýsingasíðu þingsins á heimasíðu ÍSÍ.

Sigurbjörg Sigurpálsdóttir samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs kynnti starfsemi embættisins og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir skýrði frá starfi starfhópa sem hún leiðir varðandi verkferla, heimildir og viðbragðsáætlanir.

Um kvöldið var bauð ÍSÍ þingfulltrúum til kvöldverðar og skemmtunar í Gullhömrum Grafarholti.

Myndir frá þinginu er að finna í myndasafni ÍSÍ.

Myndir með frétt