Örn Clausen og Haukur Clausen útnefndir í Heiðurshöll ÍSÍ í dag
Framhaldsþing 75. Íþróttaþings ÍSÍ var sett í Gullhömrum í Grafarholti kl. 13:00 í dag.
Við þingsetninguna voru tvíburabræðurnir og frjálsíþróttamennirnir Örn Clausen og Haukur Clausen útnefndir af framkvæmdastjórn ÍSÍ í Heiðurshöll ÍSÍ. Þeir eru 21. og 22. einstaklingurinn sem hljóta útnefningu í hina óáþreifanlegu höll afreksíþróttafólks og afreksþjálfara Íslands.
Örn og Haukur Clausen voru eineggja tvíburar, fæddir 8. nóvember 1928.
Þeir bræður, sem voru alla tíð mjög nánir, voru einna fremstir íslenskra íþróttamanna á gullöld íslenskra frjálsíþrótta fyrir og um 1950. Þeir voru ÍR-ingar og fóru mikinn í landsliði Íslands í frjálsíþróttum á keppnisferlinum, sem var reyndar allt of stuttur að flestra mati.
Örn setti samtals tíu Íslandsmet í grindahlaupum og tugþraut. Hann varð í tólfta sæti í tugþraut á Ólympíuleikunum í London1948, þá aðeins nítján ára að aldri. Árið 1949 sigraði hann í tugþraut á Norðurlandameistaramótinu í Stokkhólmi. Hann vann silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu í tugþraut 1950 og setti Norðurlandamet í sömu grein 1951. Það ár átti hann næstbesta tugþrautarárangur í heimi.
Haukur varð Norðurlandameistari í 200 metra hlaupi árið 1947, þá aðeins 18 ára gamall, er hann hljóp á nýju Íslandsmeti, 21,9 sek. Hann keppti á Ólympíuleikunum í London1948 og varð þrettándi í 100 metra hlaupi. Á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í Brussel 1950 komst hann í úrslit í 100 metra hlaupi og varð í fimmta sæti. Sumarið 1950 setti hann Norðurlandamet í 200 metra hlaupi, 21,3 sek. Það var besti tími ársins í Evrópu og stóð Norðurlandametið í sjö ár en það var einnig Íslandsmet sem stóð í 27 ár. Haukur átti allmörg Íslandsmet í ýmsum frjálsíþróttagreinum.
Haukur lést 1. maí 2003 og Örn lést 11. desember 2008. Guðrún Erlendsdóttir, ekkja Arnar, og Elín Hrefna Thorarensen, ekkja Hauks, tóku á móti viðurkenningunum fyrir hönd þeirra bræðra í Gullhömrum í dag undir standandi lófataki forystufólks ÍSÍ, þingfulltrúa og gesta.
Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna þá bræður, Örn og Hauk, í Heiðurshöll ÍSÍ
Nánari upplýsingar um Heiðurshöll ÍSÍ er að finna á heimasíðu ÍSÍ og þar er skrá yfir alla þá sem hafa verið útnefndir í Heiðurshöllina.