Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25

Yfirlýsing ÍSÍ, KSÍ og ÍTF

01.09.2021


Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Knattspyrnusamband Íslands og Íslenskur toppfótbolti sendu frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í gærkvöldi:

Öll spjót hafa beinst að knattspyrnuhreyfingunni síðustu daga. Formaður KSÍ hefur sagt af sér og í kjölfarið kom fram krafa um afsögn allrar stjórnarinnar.

Á fundi Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) í gær var samþykkt að boðað verði til aukaþings KSÍ þar sem kosin verður bráðabirgðastjórn sem starfar fram að næsta reglulega ársþingi sambandsins í byrjun árs 2022. Einnig var samþykkt að stjórn, varafulltrúar og landshlutafulltrúar munu segja af sér og skila umboði sínu eigi síðar en þegar til aukaþingsins kemur.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og félög innan Íslensks toppfótbolta (ÍTF) styðja KSÍ heilshugar við framkvæmd þeirrar aðgerðaráætlunar sem samþykkt var á fundi stjórnar KSÍ í gær. Boðunarfrestur aukaþings er einn mánuður og gera má ráð fyrir því að til þingsins verði boðað á allra næstu dögum.

ÍSÍ og KSÍ hafa skipað faghóp sem vinnur að gerð og endurskoðun nauðsynlegra verkferla svo tryggja megi enn betur rétt viðbrögð við tilkynningum viðkvæmra mála. Faghópurinn vinnur í samstarfi við samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála. Uppfærðir verkferlar verða innleiddir í allar einingar ÍSÍ svo að hreyfingin verði í heild sinni betur í stakk búin að sinna málum af fagmennsku.
Orðspor knattspyrnuhreyfingarinnar á Íslandi hefur beðið hnekki en hreyfingin býr yfir styrk, getu, tækifærum og öflugu starfsfólki, iðkendum og sjálfboðaliðum sem í sameiningu geta bætt úr og mætt þeim áskorunum sem fram hafa komið.

ÍSÍ, KSÍ og ÍTF óska eftir því að knattspyrnuhreyfingin fái svigrúm til að framfylgja ofangreindri aðgerðaráætlun svo hægt sé bæta með sem skjótustum hætti úr málum. Fyrir liggja mörg krefjandi verkefni, meðal annars varðandi mótahald og þátttöku í alþjóðlegum mótum. ÍSÍ og félög innan ÍTF styðja KSÍ til þeirra verka, samhliða framkvæmd ofangreindra úrbótaaðgerða.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands
Knattspyrnusamband Íslands
Íslenskur Toppfótbolti