Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Breytt dagsetning á Kvennahlaupinu

13.08.2021

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ verður haldið þann 11. september 2021

Nánari upplýsingar um hlaupið, hlaupastaði og fleira eru væntanlegar.

Kvennahlaup í yfir 30 ár:

Fyrsta Kvennahlaupið var haldið árið 1990. Upphaflega var markmið hlaupsins að fá fleiri konur út að hreyfa sig og að hvetja konur til þátttöku í starfi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þau markmið hafa um margt náðst þar sem konur hreyfa sig mun meira í dag en fyrir 30 árum, íslenskar íþróttakonur eru að ná frábærum árangri á heimsvísu og margar konur í forsvari fyrir íþróttahreyfinguna hérlendis.

Í dag er áherslan ekki hvað síst á samstöðu kvenna, að hver njóti þess að hreyfa sig á sínum forsendum og eigi ánægjulega samverustund með fjölskyldu og vinum.

Hlaupið er árviss viðburður hjá mörgum konum sem taka daginn frá til að hlaupa með dætrum, mæðrum, ömmum, systrum, frænkum og vinkonum sínum og margir karlmenn slást líka í hópinn.

Kvennahlaupsbolurinn 2021:

Nokkrar áherslubreytingar voru gerðar á hlaupinu í fyrra, umhverfisvitund og félagsleg ábyrgð sett á oddinn og öll framkvæmd hlaupsins skoðuð í kjölinn. Einn af þáttunum sem teknir voru til kostanna var Kvennahlaupsbolurinn sjálfur. Frá árinu 1990 hafði hann verið með sama sniði, nýr litur á hverju ári og gjarnan eftirvænting ár hvert, en við nánari athugun reyndust þessir fjölmörgu bolir síðan enda inni í skáp þar sem þeir döguðu uppi og enduðu að lokum á endurvinnslustöðvum. Bolurinn í fyrra var því hannaður bæði sem íþróttabolur en einnig sem hversdagsflík og nýtist þannig betur, bæði eigendum og umhverfi. Sami háttur verður hafður á í ár og nú styttist á afhjúpun á Kvennahlaupsbolnum 2021.

Allar á sínum forsendum:

Konur á öllum aldri taka þátt í Kvennahlaupinu, allt frá litlum stelpum í kerrum til langamma þeirra. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og allir eiga að geta fundið vegalengd við sitt hæfi. Það er því engin tímataka í hlaupinu heldur lögð áhersla á að hver komi í mark á sínum hraða, með bros á vör.