Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

ÍSÍ fagnar fjölbreytileikanum

05.08.2021

Hinsegin dagar fara fram um þessar mundir og ÍSÍ fagnar hátíðinni, mannréttinda- og menningarhátíð sem fagnar sýnileika og baráttu hinsegin fólks á Íslandi. ÍSÍ beitir sér gegn hvers kyns mismunun og ofbeldi í íþróttum, hvort sem um er að ræða mismunun vegna kynþáttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar eða af öðrum toga. Íþróttir eru fyrir alla og allir eiga að hafa tækifæri til að þroskast og eflast í fjölbreyttu og aðgengilegu íþróttastarfi. Mikilvægt er fyrir íþróttahreyfinguna að huga vel að aðgengi að íþróttastarfi og taka vel á móti öllum.

Í tengslum við hinsegin daga var haldið málþing í dag að tilstuðlan Trans Ísland og bar málþingið yfirskriftina Að byrgja brunninn: Saman gegn anti-trans áróðri. Málþinginu var stýrt af Uglu Stefaníu Kristjönudóttur, Jónsdóttur sem fór með framsögu og stjórnaði pallborðsumræðum. Í pallborði sátu Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður Samtakanna ´78, Páll Egill Winkel fangelsismálastjóri, Sigþrúður Guðmundsdóttir frá Kvennaathvarfinu og Ragnhildur Skúladóttir frá ÍSÍ. Málþingið fór fram í Þjóðminjasafninu og var streymt á fésbókarsíðu Hinsegin daga.

Á undanförnum árum hefur ÍSÍ staðið fyrir fyrirlestrum um málefni hinsegin fólks. Í tengslum við Reykjavíkurleikana (RIG) 2021, var  ráðstefnan "Íþróttir eru fyrir alla" haldin en þar voru málefni hinsegin fólks m.a. rædd. Tengil á ráðstefnuna má finna hér. Fyrirlestur um málefni transbarna sem fluttur var af Hugrúnu Vignisdóttur sálfræðingi á ráðstefnu RIG 2020 má finna hér en fyrirlesturinn var um áskoranir transbarna í íþróttum. Þá hélt María Helga Guðmundsdóttir landsliðskona í karate og þáverandi formaður Samtakanna 78 fyrirlestur árið 2016 um hinsegin fordóma, en fundurinn var samvinnuverkefni Knattspyrnusambands Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Samtakanna '78. María Helga fjallaði um stöðu hinsegin fólks í íþróttum, um kynjakerfið og hvernig það hefur áhrif á íþróttamenningu og þýðingu ýmissa hugtaka eins og intersex og kynsegin. Í fyrirlestrinum talaði María Helga um birtingaform fordóma á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna í íþróttum. Í lok fyrirlestursins ræddi hún um hvernig þjálfari, liðsfélagi, stjórnarmaður eða foreldri geti stutt hinsegin fólk í íþróttum og stuðlað þannig að opnu og fordómalausu umhverfi. Fundurinn á enn vel við í dag og því er vert að benda á að fundinn má sjá hér á Vimeo-síðu ÍSÍ. Málefni hinsegin fólks er hluti af þjálfaramenntun ÍSÍ. 

Hér á vefsíðu ÍSÍ má sjá bæklinginn Trans börn og íþróttir sem gefinn var út árið 2020.

ÍSÍ óskar landsmönnum til hamingju með hátíðina.


Myndir með frétt