Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Setningarhátíð ÓL í Tókýó

23.07.2021

Glæsileg setningarhátíð Ólympíuleikanna í Tókýó fór fram í morgun. Þema hennar var „United by Emotion“ sem mætti þýða sem „Sameinuð af tilfinningu“. 

Á upplýsingasíðu leikanna er inntak hátíðarinnar útskýrt á eftirfarandi hátt (í lauslegri þýðingu): „Fólki um allan heim hefur síðastliðið ár staðið ógn af heimsfaraldri COVID-19 og Ólympíuleikarnir í Tókýó eru haldnir í miðjum þessum áður óþekkta faraldri. Við erum öll á mismunandi aldri, af mismunandi þjóðernum og komum úr öllum áttum. Undanfarið höfum við í ofanálag þurft að halda fjarlægð hvert frá öðru. Þess vegna er óskandi að allir upplifi sömu spennu, gleði og stundum vonbrigði í gegnum frammistöðu keppenda á leikunum. Íþróttir eru alhliða. Það er ómetanlegur fjársjóður, sem við álítum að búi yfir krafti til að sameina heiminn í gegnum tilfinningar - jafnvel þó að við séum aðskilin, tölum mismunandi tungumál eða komum frá mismunandi menningarheimum. Á setningarhátíðinni verður lögð áhersla á hlutverk íþrótta og gildi Ólympíuleikanna, að láta í ljós þakklæti og aðdáun á þeirri viðleitni sem við öll sýndum síðastliðið ár sem og draga fram tilfinningu um von í garð framtíðarinnar. Við vonum að upplifunin miðli því að við höfum öll getu til að fagna mismunandi skoðunum, sýna samhygð, lifa hlið við hlið og sýna hvert öðru hluttekningu. “

Íslenski hópurinn var glæsilegur í inngöngunni á Ólympíuleikvanginum í morgun, ekki síst fánaberarnir, þau Anton Sveinn og Snæfríður Sól. Íslenski hópurinn var þriðji hópurinn til að ganga inn, strax á eftir Grikklandi sem ávallt gengur fremst allra inn á setningarhátíðum Ólympíuleika og flóttamannaliði Alþjóðaólympíunefndarinnar sem fylgdi fast á hæla Grikkjanna. Heiti Íslands á japönsku er Aisurando og því var Ísland fremst þátttökuþjóða í inngöngunni. Guðni Valur Guðnason Pétur Guðmundsson þjálfari, Pétur Einar Jónsson sjúkraþjálfari og Örvar Ólafsson aðstoðarfararstjóri eru enn í Tama City í æfingabúðum og tóku því ekki þátt í setningarhátíðinni.

Það var frábær stemning í hópnum í dag og eru allir orðnir spenntir fyrir leikunum sjálfum. Ásgeir Sigurgeirsson hefur keppni í loftskammbyssu strax á morgun og Snæfríður keppir svo í undanriðlum 26. júlí.

 

Myndir með frétt