Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Ólympíudeginum fagnað í Hveragerði

24.06.2021

Á hverju ári er haldið upp á Alþjóða Ólympíudaginn þann 23. júní út um allan heim í tilefni af stofnun Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) 23. júní 1894. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) fagnaði Ólympíudeginum 2021 í gær ásamt alþjóðaólympíuhreyfingunni og íþrótta- og Ólympíusamböndum um heim allan.

Ólympíudagurinn á Íslandi var haldinn hátíðlegur í Lystigarðinum í Hveragerði í gær í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðinn og Hveragerðisbæ. Föruneyti ÍSÍ lagði snemma af stað ásamt Valdimari Gunnarssyni framkvæmdastjóra Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) sem lánaði ÍSÍ kerru fulla af ýmsu skemmtilegu dóti til íþróttaiðkunar. Í Lystigarðinum tóku þau Guðríður Aadnegard formaður HSK og Engilbert Olgeirsson framkvæmdastjóri á móti hópnum en þau voru ÍSÍ innan handar með skipulag og framkvæmd dagsins. Einnig heilsaði bæjarstóri Hvergerðinga Aldís Hafsteinsdóttir upp á mannskapinn. 

Á Ólympíudeginum er kjörið að spreyta sig á ýmiss konar íþróttum og þrautum, en ekki einungis íþróttum sem keppt er í á Ólympíuleikum. Í Lystigarðinum voru settar upp fjórar ólíkar stöðvar; skotfimi, ringó, krossbolti/fótbolti og æfing sirkusatriða. Um 40 unglingar Vinnuskólans mættu á svæðið, skipt var í hópa og fjörið hófst. Unglingarnir tóku virkan þátt og voru áhugasamir um að læra nýjar, skemmtilegar íþróttir. Veðrið var gott og sól skein í heiði. Mikla lukku vakti fimleikameistarinn Jón Sigurður Gunnarsson, en hann bauð unglingunum upp á að læra sirkusatriði eins og að djöggla með keilum og boltum, snúa diskum á spýtu o.fl., en einnig er óhætt að segja að skotfimin hafi vakið mikinn áhuga unglinganna.  Í lokin var grillað og fóru því sáttir unglingarnir aftur í vinnuna eftir skemmtilegan morgunn.

Eftir hádegi mætti yngri kynslóðin í garðinn.  Hópurinn taldi um 60 krakka á aldrinum 5-10 ára sem flest voru á leikjanámskeiðum í bænum. Krökkunum var skipt á fjórar ólíkar stöðvar sem flestar byggðust á leikjum en svo var ein sirkusstöð. Eftir að krakkarnir höfðu farið á allar stöðvar mætti Blossi á svæðið og dansaði með krökkunum, en hann vekur alltaf lukku. Í lokin fengu allir íspinna í boði Kjöríss.

Allur dagurinn var tekinn upp og sýndur í Story á Instagram aðgangi ÍSÍ (@isiiceland)

Á morgun föstudag verður Elísa Viðarsdóttir næringar- og matvælafræðingur og landsliðskona í knattspyrnu með hádegisfyrirlestur í E-sal Íþróttamiðstöðvarinnar í tilefni af Ólympíudeginum. Sýnt verður beint frá fyrirlestrinum á fésbókarsíðu ÍSÍ.

Myndir frá Ólympíudeginum í Hveragerði má sjá hér.

Myndir með frétt