Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25

Hádegisfundur um næringarfræði íþróttafólks

24.06.2021

Föstudaginn 25. júní kl. 12 verður Elísa Viðarsdóttir matvæla- og næringafræðingur og landsliðskona í knattspyrnu með fyrirlestur um næringarfræði íþróttafólks í E-sal Íþróttamiðstöðvarinnar í Laugardal og ber fyrirlesturinn titilinn „Næringarfræðsla og ráðgjöf fyrir íþróttahreyfinguna: Þarfagreining með Delphi aðferð“. Fyrirlesturinn er byggður á meistaraprófsritgerð hennar í næringarfræði íþróttafólks.

Hádegisfundurinn er haldinn í tilefni af Ólympíudeginum en hann er haldinn hátíðlegur af Alþjóða Ólympíuhreyfingunni um allan heim þann 23. júní ár hvert og dagana í kringum afmælið.

Um innihald fyrirlestursins segir Elísa: ,,Mataræði skiptir miklu máli þegar kemur að frammistöðu íþróttafólks. Mikilvægt er að uppfylla þarfir líkamans fyrir orku-, vítamín, steinefni og önnur holl efni með næringarríkum mat auk þess að tímasetja máltíðir rétt og drekka nægilegan vökva. Næringarþekking íþróttafólks getur haft veruleg áhrif á hvernig það sinnir sínum næringarþörfum. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að næringarþekking íþróttafólks er ekki nægilega góð og nýleg rannsókn sem var gerð á íslensku afreksíþróttafólki og þjálfurum þeirra sýndi slíkt hið sama. Markmið verkefnisins var að kanna hvernig nágrannalöndin hafa mótað stefnur þegar kemur að næringarfræðslu til íþróttamanna og nýta þá þekkingu til að finna hentuga nálgun fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi. Markmiðið var að ná samstöðu (e. consensus) um þarfir og óskir þeirra aðila sem vinna innan sérsambandanna annars vegar og íþróttanæringafræðingum/ráðgjöfum hins vegar til að þróa næringarfræðslu og ráðgjöf fyrir íþróttahreyfinguna”. Í fyrirlestrinum mun íþróttamaður segja frá reynslu sinni eftir að hafa tekið mataræði sitt í gegn.

Sýnt verður beint frá fyrirlestrinum á fésbókarsíðu ÍSÍ.

Þú getur fylgst með viðburðinum hér.