Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Ársþing EOC - 50 ára afmæli

15.06.2021

Ársþing Evrópusambands ólympíunefnda (EOC) fór fram í Aþenu í Grikklandi 10.-11. júní sl. Á þinginu voru meðal annars fluttar stöðuskýrslur um helstu verkefni á vegum EOC, svo sem Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar og Evrópuleika og einnig var ítarleg kynning á nýjum alþjóðalyfjareglum sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn. Breyting var samþykkt á kjöri í Íþróttamannanefndar EOC, sem lýtur að því að nú verður kosið í nefndina annað hvert ár í stað fjórða hvert ár. 

Peace & Sport afhenti 2020 Peace & Sport verðlaunin til Ólympíunefndar Kósovó sem vann til verðlaunanna fyrir herferðina #WhiteCard.

Á þinginu var kosið til forseta og stjórnar, eins og fram kemur í sérstakri frétt hér á heimasíðu ÍSÍ. Niels Nygaard, sem tók við sem starfandi forseti í kjölfar andláts Janez Kocijancic forseta EOC í júní 2020, hlaut ekki kosningu en Spyros Capralos frá Grikklandi sigraði forsetakjörið með yfirburðum. Niels mun þó áfram koma að starfi EOC með því að sinna embætti varaformanns undirbúningsnefnd Evrópuleikanna 2023. Myndin sem fylgir fréttinni er af nýkjörinni stjórn EOC. Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ var endurkjörin í stjórnina, til næstu fjögurra ára.

Í tengslum við þingið var einnig haldið upp á 50 ára afmæli sambandsins með ýmsum hætti. EOC vinnur nú að því að uppfæra stefnumál sambandsins í góðri samvinnu við þau 50 lönd í Evrópu sem eru aðilar að sambandinu.

Fulltrúar ÍSÍ á þinginu voru Gunnar Bragason gjaldkeri ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ.

Myndir með frétt