Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
26

#metoo/#églíka

04.06.2021

Á undanförnum vikum hefur umræða um kynbundið ofbeldi blossað upp á ný. Þolendur stíga fram, skila skömminni á réttan stað og krefjast breytinga í samfélaginu. Líkt og í fyrri bylgju #metoo/#églíka hafa komið upp á yfirborðið frásagnir af kynferðisbrotum í íþróttastarfi og einnig hefur verið bent á að kvenfyrirlitningu megi finna alltof víða í karlaklefum landsins.

ÍSÍ sendi bréf til sambandsaðila sinna í gær þar sem ítrekað er að sambandið fordæmir allt ofbeldi í starfsemi íþróttahreyfingarinnar, enda er slík hegðun óásættanleg og ólíðandi með öllu. Það er, og hefur verið, markmið íþróttahreyfingarinnar að tryggja öryggi, jafnrétti og jafnræði þeirra sem iðka og starfa innan íþróttahreyfingarinnar.

Á heimasíðu ÍSÍ er að finna talsvert af forvarnarefni um kynferðislega áreitni og ofbeldi í íþróttastarfi. Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs tekur á móti tilkynningum um atvik sem upp koma og veitir þolendum ráðgjöf, stuðning og fræðslu.  Á heimasíðu ráðgjafans er hægt að tilkynna um atvik, fá ráðgjöf og finna fræðsluefni tengt málaflokknum.

ÍSÍ hvetur sambandsaðila sína til að kynna sér fræðsluefnið og deila því með sínu fólki. Einnig leggur ÍSÍ ríka áherslu á að allir sem að íþróttahreyfingunni standa taki skýra afstöðu gegn hverskyns kvenfyrirlitningu, áreitni og ofbeldi og tökum öllum málum sem upp koma þess efnis alvarlega. Þjálfarar og stjórnarfólk er hvatt til að vinna markvisst að því að byggja upp heilbrigða klefamenningu sem laus er við kvenfyrirlitningu og ofbeldi.