Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Bóluefni fyrir þátttakendur og fylgdarlið á Ólympíuleikum og Paralympics

06.05.2021

Alþjóðaólympíunefndin (IOC) kynnti í dag að IOC, Pfizer Inc. og BioNTech SE hafa gert með sér samkomulag um að útvega þátttakendum á Ólympíuleikunum í Tókýó í júlí, sem og þátttakendum á Paralympics og fylgdarliði viðkomandi þátttakenda á báðum þessum leikum, efni til bólusetningar. Efnið er boðið án endurgjalds fyrir þær Ólympíunefndir sem það vilja og ef bóluefnið er samþykkt í viðomandi landi og um er að ræða hreina viðbót við það efni sem þegar er til í viðkomandi löndum. Þessi aðgerð er liður í að auka öryggi þátttakenda á leikunum og japönsku þjóðarinnar.

Mjög strangar sóttvarnarreglur verða á leikunum. Nýlega var gefnar út uppfærðar leiðbeiningar fyrir þátttakendur í leikunum og föruneyti, sem bera heitið The Playbook, athletes and officials þar sem fram koma helstu reglur sem í gildi verða á leikunum, út frá þeirri stöðu sem nú er á COVID-19 faraldrinum í heiminum. Allir þurfa að taka tvö COVID-19 próf á tveimur aðskildum dögum 96 klukkustundum fyrir brottför til Japan og til stendur að skima íþróttafólkið daglega á meðan það dvelur í Japan. Kröfur eru gerðar um sérstakan COVID-19 tengilið fyrir hverja þjóð og verður sá tengiliður mikilvægur hlekkur á milli þátttakenda og framkvæmdaraðila ef til smitrakningar kemur og í tengslum við ýmsar kröfur sem gerðar eru til þátttakenda varðandi upplýsingagjöf og ferla.

ÍSÍ fékk ofangreindar upplýsingar fyrst í morgun og í ljósi þess að Íþróttaþing ÍSÍ verður haldið á morgun og þar verður kosið til nýrrar stjórnar sambandsins þá má gera ráð fyrir því að umfjöllun og ákvörðunartaka um málið verði í höndum nýrrar stjórnar.