Gullmerki ÍSÍ veitt á ársþingi HSÞ
13. ársþing Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ) var haldið í félagsheimilinu Þórsveri á Þórshöfn laugardaginn 20. mars 2021. Alls voru 56 þingfulltrúar mættir til þings af 82.
Þingtillögur sem lágu fyrir þinginu voru 12 og urðu heilmiklar og málefnalegar umræður um þær í nefndum þingsins, laganefnd, fjárhagsnefnd og allsherjar- og íþróttanefnd. Jónas Egilsson var kjörinn til áframhaldandi formannsembættis fyrir HSÞ og með honum í stjórn verða þau Garðar Héðinsson frá Skotfélagi Húsavíkur, Anna María Ólafsdóttir frá Ungmennafélagi Langnesinga, Selmdís Þráinsdóttir frá Íþróttafélaginu Völsungi og Sigfús Hilmir Jónsson frá Hestamannafélaginu Grana á Húsavík. Varamenn í stjórn eru þau Sigurlína Tryggvadóttir Ungmennafélaginu Einingunni og Kristinn Björn Haraldsson Mývetningi, íþrótta- og ungmennafélagi.
Íþróttamaður HSÞ var kjörinn á þinginu og að þessu sinni var það Erla Rós Ólafsdóttir spjótkastari úr Ungmennafélagi Langnesinga sem hlaut þá nafnbót. Þingforseti var Þorsteinn Ægir Egilsson og stóð hann sig með afbrigðum vel í því hlutverki og var auk þess afar duglegur við að minna á grímuskyldu og sprittaði ræðupúltið reglulega.
ÍSÍ veitti tveimur aðilum Gullmerki ÍSÍ fyrir vel unnin störf í hreyfingunni, þeim Guðrúnu Kristinsdóttur og Hermanni Aðalsteinssyni. Fulltrúi ÍSÍ á þinginu var Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri.