Ástbjörg Gunnarsdóttir, Heiðursfélagi ÍSÍ kvödd hinstu kveðju
Íþrótta- og Ólympíusambandið kveður í dag kæran Heiðursfélaga, Ástbjörgu Gunnarsdóttur.
Ástbjörg á að baki einstakan feril sem íþróttakennari og leiðtogi í íþróttahreyfingunni á Íslandi. Hún var fyrsta konan til að verða formaður sérsambands innan ÍSÍ þegar hún var kjörin til forystu í Fimleikasambandi Íslands árið 1977 og var mikill frumkvöðull á sviði kvennaleikfimi á Íslandi alla tíð.
Ástbjörg var mikil fyrirmynd í íþróttahreyfingunni, hafði brennandi áhuga á málefnum hreyfingarinnar og ekki síst hagsmunamálum kvenna í íþróttum. Hún starfaði við kennslu allt til vorsins 2015 er hún var orðin tæplega 86 ára gömul og hún var virk í nefndarstarfi hjá ÍSÍ allt til æviloka. Hún lét sér afar annt um hreyfingu fullorðinna og eldri borgara og var m.a. meðlimur nefndar ÍSÍ um Íþróttir 60 ára og eldri þar sem hún miðlaði vel af sinni visku og reynslu.
Ástbjörg hafði góða nærveru, var hlý og elskuleg og verður sárt saknað úr starfi hreyfingarinnar. Hún tók virkan þátt í viðburðum ÍSÍ í gegnum árin og var ómissandi í hópi Heiðursfélaga ÍSÍ.
Við kveðjum Ástbjörgu með miklu þakklæti fyrir allt hennar ævistarf í þágu íþrótta, almennrar hreyfingar og lýðheilsumála en einnig þakklæti fyrir hennar góðu vináttu, hlýhug og ósérhlífni í sjálfboðaliðastörfum fyrir ÍSÍ og íþróttahreyfinguna í heild.
Blessuð sé minning Ástbjargar.
Stjórn og starfsfólk ÍSÍ vottar afkomendum Ástbjargar, fjölskyldum þeirra og aðstandendum öllum dýpstu samúð.
Lárus L. Blöndal
forseti