Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Úthlutun viðbótarframlags ríkisins til íþróttahreyfingarinnar.

12.03.2021

Á vormánuðum 2020 gerði mennta- og menningarmálaráðherra samning við ÍSÍ um að allt að 450 milljónir króna yrði varið til íþróttahreyfingarinnar í fyrsta lið í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bæta það tjón sem einingar innan hennar urðu fyrir vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins. Var þeim fjármunum ráðstafað með tveimur mismunandi aðferðum og greitt til íþróttafélaga vorið 2020, svokallaðar almennar aðgerðir, og til íþróttafélaga, deilda, sérsambanda og íþróttahéraða að hausti, svokallaðar sértækar aðgerðir.

Í lok árs 2020 samþykkti Alþingi viðbótarframlag að upphæð kr. 300 milljónir til íþróttahreyfingarinnar til úthlutunar til íþróttafélaga sem starfrækja skipulagt íþróttastarf fyrir börn og unglinga 6-18 ára.  Í samningi ÍSÍ og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um viðbótarframlagið, sem undirritaður var 8. febrúar síðastliðinn, kemur fram að úthluta skuli framlaginu með sömu aðferð og notuð var þegar greitt var til íþróttafélaga vorið 2020 (almenn aðgerð).

Þær forsendur sem úthlutað er eftir koma fram í ákvörðun Alþingis og eru þær að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands skuldbindur sig til að:

  • Nýta þennan fjárstuðning til íþróttahreyfingarinnar til þess að draga úr afleiðingum heimsfaraldursins á íþróttastarf í landinu.
  • Úthluta fjármagni með almennum stuðningi til íþróttafélaga sem starfrækja skipulagt íþróttastarf fyrir börn og unglinga 6-18 ára með að lágmarki 20 skráða íþróttaiðkendur samkvæmt talnagrunni ÍSÍ og UMFÍ árið 2020. Iðkendur í almenningsíþróttadeildum, samkvæmt skráningu ÍSÍ og UMFÍ, teljast ekki með vegna mismunandi túlkunar á skráningu iðkenda í þær deildir. Vægi iðkenda í útreikningi er óháð búsetu þeirra. Tillit er tekið til fjölgreinafélaga í reiknireglunni. Heildarframlag fjölgreinafélaga hækkar með veldisvexti fyrri hverja grein umfram eina og til og með fimmtu greininni. Úthlutun til einstaks íþróttafélags getur ekki orðið hærri en 3% af veltu félagsins samkvæmt staðfestum reikningsskilum 2020 fyrir árið 2019 (fjárhagslegar tölur frá árinu 2019).

Framkvæmdastjórn ÍSÍ leitaði aftur til vinnuhópsins sem skipaður var vorið 2020 í tengslum við fyrri úthlutanir á framlagi ríkisins, til að móta tillögu að skiptingu fjármuna og skilaði vinnuhópurinn af sér tillögu til stjórnar ÍSÍ þann 4. mars síðastliðinn. Tillagan hefur nú verið samþykkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Yfirlit yfir greiðslur til íþrótta- og ungmennafélaga – Almennar aðgerðir II

224 íþrótta- og ungmennafélög hljóta greiðslu að þessu sinni og er það í höndum aðalstjórna íþróttafélaga að ráðstafa framlaginu innan síns félags til þeirra deilda/verkefna sem hafa orðið fyrir tjóni vegna Covid-19. Framlagið er ætlað til þess að koma til móts við það tjón sem hefur orðið innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.