Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Það geta allir tekið þátt í Lífshlaupinu

01.02.2021

Í Lífshlaupinu eru allir landsmenn hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er, þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta.

Skráning í Lífshlaupið 2021 er hafin á vefsíðu Lífshlaupsins www.lifshlaupid.is.

Til að þess að fá stig fyrir liðið sitt í Lífshlaupinu er það eina sem þarf að gera að hreyfa sig samtals í 30 mínútur yfir daginn (60 mínútur fyrir börn og unglinga). Það þarf ekki að vera ofurhlaupari, ofurhjólreiðakappi eða annarskonar afreksmaður til þess að taka þátt – Það þarf bara að hreyfa sig reglulega, helst daglega, en 100% þátttökuhlutfall fæst með því að hreyfa sig 5 daga vikunnar í 30 mín í senn (60 mín fyrir börn og unglinga).

Til þess að ganga vel í keppninni þarf vinnustaðurinn að vera með sem hæst hlutfall hreyfidaga. Til dæmis, ef 10 manns vinna á vinnustaðnum en 9 manns taka þátt, og þessir 9 manns hreyfa sig alla daga í 30 mínútur á dag þá er hlutfallið hjá þeim 90%. Það breytir því ekki þó einhver einn hreyfir sig í 5 klst á dag – staða þessara liðs í keppninni breytist ekkert. Afreksmaður og meðaljóni telja jafn mikið fyrir sitt lið.

Lífshlaupið snýst semsagt um að fá sem flesta með í lið og að fá sem flesta til að hreyfa sig sem oftast! Hvort sem þú ert byrjandi sem langar að fara að komast sér af stað í reglulega hreyfingu, eða nú þegar ofurhlaupari og vilt taka þátt fyrir þinn vinnustað og nota Lífshlaupið til að halda utan um þína hreyfingu – þá er Lífshlaupið fyrir þig!

Nú er orðið einfaldara að skrá hreyfingu sína á meðan á Lífshlaupinu stendur því útbúið hefur verið smáforrit Lífshlaupsins. Í smáforritinu er hægt að skrá og sjá alla hreyfingu viku aftur í tímann. Þar er einnig hægt að lesa hreyfingu beint úr Strava. Það er þó rétt að benda á að það þarf að fara á vefsíðu Lífshlaupsins til þess að stofna aðgang og til þess að stofna lið, en eftir að það er búið er hægt að skrá sig inn í gegnum smáforritið og skrá alla hreyfingu þar.

Smáforritið finnst bæði í App Store (iOS) og í Play Store (Android) undir heitinu „Lífshlaupið“.

Um Lífshlaupið
Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.

Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka:
• Vinnustaðakeppni frá 3. febrúar – 23. febrúar, fyrir 16 ára og eldri.
• Framhaldsskólakeppni frá 3. febrúar – 16. febrúar, fyrir 16 ára og eldri. 
• Grunnskólakeppni frá 3. febrúar– 16. febrúar, fyrir 15 ára og yngri.
• Einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið.

Eins og ávallt hvetjur ÍSÍ alla landsmenn til þess að taka þátt í Lífshlaupinu og skapa skemmtilega stemningu og auka félagsandann á vinnustaðnum eða í skólanum.

Skráningarferlið er einfalt og þægilegt en fínar leiðbeiningar má finna hér og undir viðeigandi keppni vinstra megin. Gaman er að geta fylgst með sinni hreyfingu og jafnframt tekið þátt í þessari skemmtilegu landskeppni.