Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Val sérsambanda ÍSÍ á íþróttafólki ársins

29.12.2020

 

Vegna takmarkana á samkomubanni þá verður því miður ekki hægt að halda árlegt hóf ÍSÍ um afhendingar á viðurkenningum sérsambanda ÍSÍ til útnefndra íþróttakvenna og íþróttamanna þeirra. Engu að síður eru flest sérsambönd ÍSÍ að útnefna sitt íþróttafólk ársins 2020 og líkt og áður gefa ÍSÍ og Ólympíufjölskylda ÍSÍ veglega bikara til allra þeirra sem útnefndir eru af sérsamböndum ÍSÍ. Ólympíufjölskylda ÍSÍ samanstendur af fyrirtækjunum Arion banka, Icelandair, Toyota á Íslandi og Sjóvá og styðja fyrirtækin með ýmsum hætti við verkefni ÍSÍ og íþróttastarfið.

Mörg góð íþróttaafrek unnust á árinu 2020, þrátt fyrir erfiðleika í mótahaldi bæði hér á landi og erlendis og vert að beina sjónum að því sem gott gerðist á árinu. Afrek íslensks íþróttafólks hafa lýst upp tilveru okkar á þessu erfiða ári og gefið gott fordæmi um bætingar og velgengni þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Það eru mikilvæg skilaboð út í samfélagið og nærir bjartsýni og þrautseigju, sem er okkur svo nauðsynleg þessa mánuðina.

ÍSÍ mun gera íþróttafólki sérsambanda frekari skil á miðlum sínum og birta þar upplýsingar og myndir því tengdu, líkt og fyrri ár.  Margir af þeim sem útnefndir hafa verið af sérsamböndum komust ekki heim til Íslands um jólin af ýmsum orsökum, flestum tengdum Covid-19 takmörkunum og því munu einhverjar afhendingar dragast fram á nýtt ár.

ÍSÍ óskar öllum íþróttakonum og íþróttamönnum sérsambanda ÍSÍ innilega til hamingju með titilana og óskar þeim öllum velfarnaðar á nýju íþróttaári.