Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Allt íþróttastarf óheimilt frá 31. október

30.10.2020

Nú rétt í þessu lauk blaðamannafundi í Hörpunni þar sem heilbrigðisráðherra tilkynnti um hertar aðgerðir í sóttvörnum frá miðnætti og til 17. nóvember nk.  Aðgerðirnar byggja á tilmælum sóttvarnalæknis, eins og fram kemur í reglugerð heilbrigðisráðherra frá því í dag. Íþróttir, þar með talið æfingar og keppni, barna og fullorðinna, hvort sem er innan- eða utandyra, með eða án snertingar, eru óheimilar.  Einstaklingsbundnar æfingar, án snertingar, eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing. Sundlaugar verða jafnframt lokaðar á sama tímabili. Þá kemur fram í reglugerðinni að ráðherra getur þó veitt undanþágu fyrir einstaka íþróttaviðburð svo sem alþjóðlega keppnisleiki.

Fjöldatakmarkanir fara úr 20 manns og niður í 10 manns. Einungis börn fædd 2015 og yngri eru undanþegin 2ja metra reglunni, fjöldatakmörkunum og grímuskyldu.

Í ofangreindar aðgerðir er ráðist í kjölfar aukinna smita í samfélaginu og hópsýkinga sem upp hafa komið á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Heilbrigðiskerfið í landinu er undir gríðarlegu álagi þessa dagana og er Landspítalinn kominn á neyðarstig. Miðast aðgerðir meðal annars við að minnka álagið svo heilbrigðiskerfið geti mætt þeim aðstæðum sem skapast hafa í faraldrinum.

„Undanfarna mánuði hefur íþróttahreyfingin ýmist verið í vörn eða sókn og í dag þurfum við enn og aftur að bíta á jaxlinn og standa af okkur storminn. Það er erfitt að þurfa að hætta við fyrirætlanir um frekari opnun íþróttastarfs og í staðinn horfa fram á lokun alls íþróttastarfs.

Íþróttahreyfingin er ótrúleg hreyfing. Hún hefur staðið sig frábærlega í þessu erfiða umhverfi sem hún hefur búið við síðustu mánuði. Ég hvet alla sem koma að íþróttastarfinu til að sýna áfram þolinmæði og seiglu sem munu reynast okkur vel í baráttunni við veiruna. Við þurfum, þrátt fyrir farsóttarþreytu, að halda áfram að rækta það frumkvæði og hugmyndaflug sem hreyfingin hefur sýnt þegar kemur að því mæta þeim áskorunum sem við blasa hverju sinni.

Við þurfum öll að standa vörð um íþróttastarfið í landinu og vera meðvituð um mikilvægi íþróttaiðkunar, ekki síst á tímum sem þessum. Gott heilsufar er besta forvörnin gagnvart kórónuveirunni sem og mörgum öðrum sjúkdómum.

Hvetjum hvert annað áfram, sýnum tillitsemi, samstöðu og ábyrga hegðun“, sagði Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ við birtingu nýju reglugerðarinnar í dag.

 

Reglugerð um samkomutakmarkanir vegna farsóttar.

Minnisblað sóttvarnarlæknis má sjá hér.

Hér má sjá frétt af vef Heilbrigðisráðuneytisins.