Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Samráðsfundir með sambandsaðilum ÍSÍ

13.10.2020
Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ funduðu nýverið með sérsamböndum ÍSÍ og íþróttahéruðunum um allt land, í gegnum fjarfundabúnað.

Á fundunum var staða mála varðandi Covid-19 rædd sem og þær áskoranir sem sambandsaðilar þurfa að mæta næstu vikur og mánuði.

Sambandsaðilar ÍSÍ hafa staðið vaktina síðan í mars síðastliðnum og hefur mikið álag verið á forystufólki í öllum einingum íþróttahreyfingarinnar í síbreytilegu umhverfi sem hefur verið allt frá allsherjar lokun alls íþróttastarfs til mildari útgáfu sóttvarna. Bregðast þarf skjótt við öllum fyrirmælum yfirvalda og það er krefjandi, í umhverfi sem borið er uppi af sjálfboðaliðum.

Forseti ÍSÍ segir það ánægjulegt að skynja bjartsýnina og jákvæðnina sem almennt ríkir hjá forystufólki sambandsaðila ÍSÍ þrátt fyrir áföll síðustu mánaða:

„Auðvitað eru allir þreyttir á þessum aðstæðum og það er full ástæða til að hafa áhyggjur af ákveðnum þáttum í rekstri hreyfingarinnar en það er enga uppgjöf að finna hjá leiðtogum sambandsaðila ÍSÍ. Það eru allir meðvitaðir um það mikilvæga starf sem hreyfingin vinnur, ekki síst nú þegar skýrt hefur komið fram að gott heilsufar og heilbrigðir lifnaðarhættir spila stórt hlutverk í baráttunni við kórónuveiruna. Það er því mikilvægt að snúa bökum saman, gera allt sem hægt er til að sporna við brottfalli úr íþróttum og finna sameiginlega leiðir til að létta enn frekar rekstur eininganna í hreyfingunni. Við erum afar stolt af því starfi sem íþróttahreyfingin stendur fyrir og þakklát fyrir þá miklu vinnu sem allir í hreyfingunni hafa lagt á sig á þessum fordæmalausu tímum til að þjónusta landsmenn og halda úti eins öflugu íþróttastarfi á landinu og aðstæður leyfa hverju sinni“.

Stefnt er að því að fjölga samráðsfundum með sambandsaðilum ÍSÍ og nýta til þess fjarfundatækni sem allflestir hafa náð góðum tökum á síðustu mánuði, til að ræða helstu hagsmunamál hreyfingarinnar og miðla upplýsingum.

Myndir með frétt