Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Virkni og vellíðan í Kópavogi

06.10.2020

Virkni og vellíðan er nýtt heilsueflandi verkefni fyrir 60 ára og eldri í Kópavogi. Verkefnið er samstarfsverkefni Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK), Kópavogsbæjar og þriggja stóru íþróttafélaganna í bænum, Breiðabliks, Handknattleiksfélags Kópavogs (HK) og Gerplu. Þessi þrjú íþróttafélög bjóða upp á frábæra aðstöðu sem og menntað fagfólk og er þetta frábært tækifæri fyrir 60 ára og eldri til þess að nýta sér aðstöðuna næstu árin. Þátttakendur í verkefninu fá tækifæri til að stunda hreyfingu í því félagi sem stendur næst heimili þeirra í Kópavogi. Í boði verða þrjár æfingar í viku. Æfingarnar eru blanda af styrktar-, þol-, liðleika- og jafnvægisæfingum, en einnig er hægt að velja um jóga, göngufótbolta eða dans sem þriðju æfingu. Markmiðið með verkefninu er að stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu þátttakenda, að gefa bæjarbúum tækifæri á því að stunda hreyfingu í sínu nánasta umhverfi, að stuðla að farsælli öldrun bæjarbúa, að auka þekkingu á mikilvægi hreyfingar og að stuðla að auknu heilbrigði bæjarbúa í Kópavogi. 

Verkefnið hefst mánudaginn 12. október nk. Það er fullt í verkefnið nú þegar, en það komast 200 einstaklingar að í þessum fyrsta hópi. Hins vegar er hægt að skrá sig á biðlista.

Eva Katrín Friðgeirsdóttir, íþróttafræðingur og verkefnastjóri verkefnisins, er full tilhlökkunar að koma verkefninu loksins af stað, en undirbúningur þess hefur staðið yfir í langan tíma. „Það er búið að vera mjög skemmtilegt að vinna að þessu stóra verkefni og margir aðilar sem hafa hjálpast að við að láta þetta verða að veruleika. Það stóð til að byrja þetta fyrr, en vegna aðstæðna í samfélaginu hefur það ekki tekist. Við ætlum hins vegar að hefjast handa 19. október og passað verður upp á allar sóttvarnir. Eftir áramót fara síðan af stað mælingar til þess að meta heilsufarsleg áhrif verkefnisins".

ÍSÍ hvetur fólk sem er 60 ára og eldra að taka þátt í verkefninu Virkni og vellíðan í Kópavogi. Áhugasamir geta skráð sig hér á biðlista.

Facebook síða verkefnisins

 

Myndin með fréttinni er frá Kópavogsbæ.

Myndir með frétt