Framhaldsskólar geta sótt um styrk vegna Íþróttaviku Evrópu
Í tilefni af Íþróttaviku Evrópu stóð til að hafa ýmislegt í boði fyrir framhaldsskólanema. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu (Covid-19) verður ekki úr því að halda viðburði. Hinsvegar geta framhaldsskólar sótt styrk til ÍSÍ til þess að gera eitthvað heilsueflandi innan skólans. Allir skólastjórnendur og íþróttakennarar framhaldsskóla ættu að hafa fengið sent í tölvupósti upplýsingar um það. Þar að auki verður TikTok dans í gangi þar sem allir eru hvattir til að dansa í tilefni af Íþróttaviku Evrópu og Instagramleikur þar sem allir eru hvattir til þess að hreyfa sig, taka mynd og nota #beactiveiceland. Þeir sem það gera eiga möguleika á að vinna glæsilega vinninga frá Brooks, World Class, Hreysti, Sportvörum og Skautahöllinni.
Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að huga að hreyfingu og heilbrigðu líferni. Ljóst er að mikið og óvenjulegt álag er á einstaklingum og samfélaginu öllu vegna Covid-19 en einmitt þess vegna er mikilvægt að rækta heilsuna og hreyfa sig reglulega. Hver og einn ætti að geta fundið eithvað við hæfi hvort sem það er innan íþróttafélaga eða á eigin vegum með því að fara í göngur, hjólreiðar, hlaup, fjallgöngur, jóga, lyftingar eða annað. Landlæknir hefur gefið út ráðleggingar um hreyfingu þar sem kemur fram að börn ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir í 30 mínútur daglega en með því að hreyfa sig reglulega er hægt að bæta lífsgæði verulega og draga úr líkum á því að fá ýmsa sjúkdóma.