Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Hamraskóli og Síðuskóli í Ólympíugír

11.09.2020

Grunnskólar á Íslandi taka nú margir hverjir þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ þessa dagana. Hamraskóli í Reykjavík og Síðuskóli á Akureyri sendu inn frásagnir frá sínu hlaupi til ÍSÍ á dögunum sem sjá má hér fyrir neðan.

„Við í Hamraskóla hlupum Ólympíuhlaup ÍSÍ föstudaginn 4. september sl. í sól og haustblíðu. Við enduðum öll saman síðustu kennslustundina fyrir helgarfrí, nutum góða veðursins og áttum saman hressandi útiveru og hreyfingu. Í Hamraskóla er 1. til 7. bekkur og hlupu nemendur ýmist 2,5 km. eða 5 km.“

„Þann 1. september sl. tók Síðuskóli á Akureyri þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ. Hlaupið fór mjög vel fram og var mikil jákvæðni í loftinu. Við vorum heppin með veður þar sem það var þurrt og hlýtt og mjög gott hlaupaveður. Fjöldi nemenda sem tóku þátt í hlaupinu voru 347 talsins og hlupu þessir nemendur samtals 623 hringi sem jafngildir 1391 km. eða 4,02 km. á hvern nemanda. Eftir að hlaupinu lauk voru niðurstöður teknar saman og hengdar upp á vegg svo að nemendur skólans gátu séð árangur sinn. Í þetta sinn var það 4. bekkur sem hljóp lengst eða 5.52 km að meðaltali.“

 

Um Ólympíuhlaup ÍSÍ
Með Ólympíuhlaupi ÍSÍ er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Nemendur geta valið á milli þriggja vegalengda í hlaupinu, þ.e. 2,5 km, 5 km eða 10 km. Að hlaupinu loknu fær hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri, hversu margir tóku þátt og hversu langt var hlaupið. Nú fá nemendur ekki lengur skjal vegna þátttöku og ráða umhverfisástæður þar mestu. Það skal tekið fram að með hlaupinu er fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt. Mjólkursamsalan, MS, hefur frá upphafi styrkt útgáfu viðurkenningarskjala og mun halda því áfram og samstarfsaðili að þessu verkefni er eins og áður Íþrótta- og heilsufræðingafélag Íslands.

Hlaupið er styrkt af verkefninu Íþróttavika Evrópu og verða nöfn þriggja þátttökuskóla, sem ljúka hlaupinu fyrir 10. október og skila inn upplýsingum til ÍSÍ, dregin út úr potti. Hver þessara þriggja skóla fær 100.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu. Þeir skólar sem ljúka hlaupinu eftir 10. október geta eftir sem áður skilað inn upplýsingum og fengið sent viðurkenningaskjal, en gert er ráð fyrir að allir skólar hafi lokið hlaupinu fyrir árslok 2020.

Skráning fer fram hér á vefsíðu ÍSÍ.

Myndirnar með fréttinni eru frá Ólympíuhlaupi ÍSÍ í Hamraskóla.

Myndir með frétt